Viðskipti innlent

Getur hefnt sín illilega

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ef ekki er rétt staðið að afnámi gjaldeyrishaftanna þá getur það hefnt sín illilega í litlu hagkerfi eins og því íslenska. Þetta segir ráðgjafi framkvæmdahóps stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna sem fundaði í dag með slitastjórnum gömlu bankanna.

Fundurinn var haldinn að ósk slitastjórna gömlu bankanna þriggja Kaupþings, Landsbankans og Glitnis. Ekki fékkst uppgefið á fundinum um hvernig staðið verði að afnámi haftanna né hvað felist nákvæmlega í tillögunum framkvæmdahóps stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna. Búist er við að tillögurnar verði kynntar snemma á næsta ári.

„Á þessum fundi munum við ekki ræða neinar nákvæmar tillögur sem yfirvöld kynnu að leggja fram. Þær eru ekki endanlegar. Tilgangur þessa fundar er að heyra skoðanir slitastjórnanna, í raun hvað þær myndu gera ef þær sætu okkar megin við borðið,“ segir Lee Buchheit ráðgjafi framkvæmdahópsins.

Þá er búist við að í tillögum framkvæmdahópsins verði gert ráð fyrir að þeir sem vilji skipta krónunum sínum strax í annan gjaldeyri þurfi að greiða ákveðinn útgönguskatt. Hann yrði líklega orðið á bilinu 20-45%. Lee vill ekkert segja um það en leggur áherslu á mikilvægi þess að tillögurnar verði vel útfærðar.

„Það eru fordæmi í öðrum löndum um afnám gjaldeyrishafta. Sannleikurinn um gjaldeyrishöft er sá að það er auðveldara að koma þeim á en að afnema þau. Þetta verður að gera mjög varlega, sérstaklega í svona litlu hagkerfi. Mistök við skipulag eða framkvæmd þessarar áætlunar gætu haft mjög alvarlegar afleiðingar í hagkerfi af þessari stærð. Þess vegna hafa yfirvöld farið svona varlega,“ segir Lee Buchheit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×