Innlent

Þræll í hlekkjum andlit negrasálmamessu

Jakob Bjarnar skrifar
Ýmsir velta því fyrir sér hvort greina megi kynþáttafordóma í kynningu á tónleikunum, en séra Svavar Alfreð segir að önnur framsetning væri fölsun á sögunni.
Ýmsir velta því fyrir sér hvort greina megi kynþáttafordóma í kynningu á tónleikunum, en séra Svavar Alfreð segir að önnur framsetning væri fölsun á sögunni.
Greina má kurr á samfélagsmiðlum, auglýsing þar sem vakin er athygli á tónleikum í Akureyrarkirkju á sunnudaginn, kór Akureyrarkirkju ásamt hljómsveit mun flytja negrasálma, hefur orkað stuðandi á ýmsa. Bæði er að fólk er viðkvæmt fyrir orðinu „negri“ og þá ekki síður þykir mynd á auglýsingunni; þræll í hlekkjum, vera á mörkum þess að teljast ósmekkleg.

Víst er að samfélagið er mjög á tánum gagnvart öllu því sem hugsanlega má túlka sem fordóma og skemmst er að minnast þess þegar talsvert upphlaup varð vegna þess að kaffihús við Laugarveginn var með styttu af svörtum manni sem sitt einkennistákn. Það endaði með því að þau þar urðu að fjarlægja styttuna.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir þetta náttúrlega orð sem einu sinni þótti sjálfsagt en sé það ekki lengur. „Júði, til dæmis, þykir ekki gott í dag en það er notað í Passíusálmunum. Lýsandi fyrir það hvernig orð geta breyst og merking þeirra. Ég veit að fólkið í kórnum var búið að leita að öðru orðin. En, það er spurning hvaða hugtök við eigum önnur? Myndin af þræli á sér svo þá tengingu að mikið af þessum sálmum urðu til þegar þetta fólk, þrælarnir, bjó við þessar ömurlegu aðstæður,“ segir séra Svavar  Alfreð. Og hann spyr: „Þeldökkrasálmar? Þrælasálmar? Ég veit það ekki. Einu sinni var ágætt hæsta stigið. Nú er svo ekki. Tungumálið er lifandi og menningin. Auðvitað hefði verið betra að geta notað eitthvað annað orð, en þá erum við farin að falsa söguna. Negri hefur verið notað sem skammaryrði. Svo var um orðið homma en nú eru menn stoltir af því að vera hommar. Þetta er snúið.“

Sóknarpresturinn vekur á því athygli að fólk hafi notaði tónlistina til að kveikja með sér vonir og syngja í sig móð. „Tónlistin hreinlega bjargaði lífi fólks. Ég held að það séu nú tengingarnar. Mér finnst það gott að minna á þennan bakgrunn þessarar tónlist. Sem er óaðskiljanlegur hluti, vilji maður skilja þessa tónlist. Og gott nú á dögum, þegar tónlistarkennarar eru í sinni baráttu, að minna á hversu mikið lífsspursmál tónlistin getur verið.“ Séra Svavar Alfreð segist ákaflega stoltur af kórnum og hann hlakkar til tónleikanna. Og telur víst að hann og kórinn muni halda sínu striki með að kynna tónleikana með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×