Körfubolti

„Við steikjum KR-ingana kanalausir“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel/Stefán
Grindavík er enn að leita sér að nýjum Bandaríkjamanni en Joey Haywood er farinn frá félaginu. Hann spilaði sinn síðasta leik í sigrinum á Þór á fimmtudagskvöld.

Grindavík missti Sigurð Þorsteinsson í atvinnumennsku til Svíþjóðar skömmu áður en tímabilið hófst og er nú að leita sér að miðherja í hans stað.

„Okkur vantar hávaxnari leikmann, en það er leiðinlegt að senda jafn góðan leikmann heim. Það er sjaldan sem maður lendir í því, en í þessu tilfelli er það þannig. Við ætlum að fá stærri leikmann sem hjálpar okkur meira inni í teig,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, við Vísi eftir sigurinn á fimmtudag.

„Leit stendur enn yfir. Það er nóg úrval en ég get ekkert sagt um hvað verður,“ sagði Jón Gauti Dagbjartsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í samtali við Vísi í dag.

„Við erum í sambandi við bæði leikmenn og umboðsmenn og erum að reyna að velja þann eina rétta. Við fórum í gegnum fjóra Kana í fyrra en þar áður höfðum við verið mjög heppnir með útlendinga.“

„Það er ekkert stress á okkur. Við erum lemstraðir og vitum af því en við verðum fullmannaðir um jólin. Við ætlum að flýta okkur hægt og finna rétta leikmanninn,“ sagði Jón Gauti en Grindavík mætir KR í vesturbænum á fimmtudaginn. Liðið verður þá alíslenskt.

„Við stekjum KR-ingana kanalausir,“ sagði hann í léttum dúr. „Við ætlum að láta þá hafa fyrir hlutunum.“

Íslensk félög þurfa nú að fá leyfi fyrir erlenda leikmenn hjá bæði Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun áður en þeir koma til landsins. Leikmennirnir þurfa enn fremur að framvísa sakavottorði en allt ferlið getur tekið þó nokkra daga. Það eru því líkur á að það muni líða nokkur tími áður en Grindavík fær nýjan Bandaríkjamann í gula búninginn.

Grindavík er í fimmta sæti Domino's-deildar karla með fjögur stig eftir fjórar umferðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×