Viðskipti innlent

Austasti bær landsins lengist enn til austurs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Austasti bær á Íslandi, Neskaupstaður, og einn sá lengsti á landinu, er enn að lengjast til austurs því nú er raðhúsalengja að bætast við. Þetta eru jafnframt fyrstu íbúðarhúsin sem þar er hafin smíði á eftir hrun. Fyrir verkinu stendur 82 ára gamalt félag, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, en það stofnaði sérstakt félag um húsbygginguna með tveimur verktökum í bænum.

Húsin rísa við vitann, austast í Neskaupstað.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Freysteinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna, sagði í fréttum Stöðvar 2 að sem hluthafi í Síldarvinnslunni fengi félagið arð, sem beint væri til góðra verka í bænum. „Og okkur sveið hvað langt væri um liðið að ekki skyldi vera byggt hérna því að þörfin er sannarlega fyrir hendi,“ sagði Freysteinn. 

Þetta verður ein raðhúsalengja með fjórum íbúðum, upp á 120 fermetra hver, þar af er bílskúr 23 fermetrar. Freysteinn segir slíka húsbyggingu batamerki. Það eru ekki síst væntanleg jarðgöng sem hleypt hafa bjartsýni í Norðfirðinga.

Raðhúsin verða fjögur, hvert 120 fermetra stórt.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Nýju húsin rísa á austustu lóð bæjarins og verða því austasta byggð á Íslandi fyrir utan Dalatanga. Neskaupstaður er hins vegar allur á lengdina, um þriggja kílómetra langur, og einn lengsti bær landsins. Nýja raðhúsalengja mun því lengja bæinn enn frekar. 

„En svo eigum við Norðfjarðarsveit eftir. Hún er nú ansi löng. Þá held ég nú að þetta verði orðin langavitleysa, ef það verður allt komið.“

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað stendur að smíðinni í samvinnu við tvo verktaka í bænum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×