Viðskipti innlent

Kínverjar mættir til að hefja olíuleitina

Kristján Már Unnarsson skrifar

Leyfishafar á Drekasvæðinu undir forystu kínverska félagsins CNOOC ákváðu á fundi í dag að hraðar yrði farið af stað í olíuleitina en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rannsóknarleiðangrar á skipum hefjast strax á næsta ári og stefnt er á borpall innan fimm ára.

Segja má að kínverska olíufélagið CNOOC hafi tekið forystu í olíuleitinni en fulltrúar þess funduðu í Reykjavík í dag með samstarfsaðilum sínum í sérleyfinu, norska ríkisolíufélaginu Petoro og íslenska félaginu Eykon Energy. Fulltrúar Orkustofnunar sátu einnig fundinn, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, en þetta er einn þriggja sérleyfishópa.

Fulltrúar Orkustofnunar, Petoro og Eykons á fundinum í dag.Stöð 2/Björn Sigurðsson.

Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons Energy, sagði í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að meginniðurstaðan sé að hefja tvívíðar endurvarpsmælingar næsta sumar, árið 2015, og síðan mögulega þrívíðar mælingar kannski tveimur árum eftir það. 

Hérlendis hefur því verið fleygt í umræðunni að ný tækni við olíuvinnslu úr jarðlögum og lækkandi olíuverð kunni að draga úr áhuga á olíuleit á Drekasvæðinu. Gunnlaugur kveðst ekki skynja það á samstarfsaðilum. Þeir fari í þetta af miklum krafti og hraðar en rannsóknaráætlun gerði ráð fyrir. Tugum milljóna dollara verði varið til rannsókna fram að borun. Hver borhola muni síðan kosta 100-200 milljónir dollara.

En hvenær má búast við fyrsta borpalli? 

„Borun gæti verið á árabilinu 2019 til 2021,“ svarar Gunnlaugur.

Sérleyfin þrjú á Drekasvæði.

Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×