Viðskipti innlent

„Verðlaunin eru góð viðurkenning á öflugri starfsemi okkar“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Róbert Wessman á hátíðinni.
Róbert Wessman á hátíðinni.
Lyfjafyrirtækið Alvogen vann til tvennra verðlauna á alþjóðlegri lyfjaráðstefnu í París í síðustu viku. Það var alþjóðlega fagtímaritið Generics Bulletin sem stóð fyrir verðlaununum sem er stærsta fagtímarit á sínu sviði. Fyrirtækið var einnig þátttakandi í stærstu lyfjasýningu heims í síðustu viku, sem kallast Cphi. Þar voru saman voru komin öll stærstu lyfjafyrirtæki heims og um 40,000 gestir. Sýningin stóð í þrjá daga en um 40 lykilstarfsmenn Alvogen og dótturfyrirtækja áttu fundi með samstarfsfyrirtækjum og kynntu vörur og þjónustu, eins og kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í samtali við Vísi segist Róbert vera mjög sáttur með verðlaunin og segir að sýningin hafi einnig gengið vel. „Frá árinu 2009 höfum við rúmlega fimmtánfaldað umsvif Alvogen og starfsemi okkar í dag nær til 35 landa. Bandaríkin eru áfram okkar stærsti markaður og verðlaunin eru góð viðurkenning á öflugri starfsemi okkar þar. Við hittum alla okkar helstu samstarfsaðila í París og fyrirtæki sækjast eftir að vinna með Alvogen sem er ánægjulegt. Það eru aðeins fimm ár síðan Alvogen var fremur lítið bandarískt lyfjafyrirtæki en nú erum við að komast í hóp stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims,“ segir forstjórinn og bætir við:

„Á sýningunni, í gegnum tíðina, hefur Alvogen gert marga af sínum stærstu samstarfssamningum.“

Róbert segir sýningarbás Alvogen hafa verið um 300 fermetrar að stærð og mikið hafi verið lagt í framúrstefnulega hönnun. „Við höfum verið með bás á sýningunni síðastliðin þrjú ár og við hönnum hann innanhúss, byggjum hann sjálf og svo ráðum við Íslendinga til að sjá um veitingar og vinna með okkur á básnum.“

Hér má sjá bás Alvogen á hátíðinni í París.
Skorað á samstarfsfyrirtæki í golfhermi

Í tilkynningu frá Alvogen kemur jafnframt fram að forsvarsmenn Alvogen hafi skorað á frosvarsmenn samstarfsfyrirtækja í keppni, eins og undanfarin ár. Á þessari sýningu var keppt í golfi, en flottum golfhermi var komið fyrir í sýningarbási Alvogen.

Alvogen starfar um þessar mundir í 35 löndum og hjá fyrirtækinu vinna 2.300 manns. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir: 

„Bandaríkjamarkaður er stærsti markaður Alvogen og þar hefur fyrirtækið vakið mikla athygli fyrir mikinn vöxt. Aðrir markaðir fyrirtækisins eru í Suður Asíu og Austur Evrópu, m.a. í Kóreu, Taiwan, Ungverjalandi og Búlgaríu. Á Íslandi vinnur Alvogen að byggingu Hátækniseturs með systurfyrirtæki sínu, Alvotech, og fyrirhugað er að húsið verði komið í notkun í ársbyrjun 2016.“

Hér að neðan má sjá myndband frá fyrirtækinu, sem tekið var upp á hátíðinni.



Alvogen CPHI 2014 from Alvogen on Vimeo.

Hér er Róbert Wessman á hátíðinni, skömmu eftir að verðlaunin voru afhent.
Hér má sjá starfsmenn Alvogen, á hátíðinni í París.

Tengdar fréttir

Slysið breytti forgangsröðuninni

Róbert Wessman var einstaklega heppinn þegar hann lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi fyrir ári. Hann segir bataferlið hafa verið erfitt en einnig gefandi. Samhliða endurhæfunginni eftir slysið hefur hann byggt upp Alvogen og hann vill að Ísland spili stórt hlutverk í uppbyggingu fyrirtækisins.

Hafa safnað rúmum 30 milljónum í styrki á þremur árum

Starfsmenn Alvogen stofnuðu styrktarsjóðinn Better Planet fyrir þremur árum. Markmið sjóðsins er að gera heiminn að betri stað fyrir börn. Þetta hófst allt þegar starfsmennirnir skoruðu á Róbert Wessman forstjóra að taka þátt í þríþrautakeppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×