Viðskipti innlent

Innflutningur á fersku kjöti aðeins tímaspursmál

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Vísir/Stefán
Eftirlitsstofnun EFTA telur innflutningsbann á fersku kjöti ekki standast samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hvetur íslensk stjórnvöld til að bregðast við álitinu og segir tímaspursmál hvenær innflutningur á fersku kjöti verði leyfður.

Samtök verslunar- og þjónustu kvörtuðu í desember árið 2011 til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á löggjöf um matvæli. Samtökin töldu löggjöfina, sem felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga.

Íslensk stjórnvöld báru því við í málinu að nauðsynlegt væri að takmarka innflutning á fersku kjöti til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þessum málatilbúnaði var með öllu hafnað í áliti Eftirlitsstofnunar EFTA. Kemur þar fram að þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað, renni ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýni gögnin þvert á móti, að áhætta af sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi.

„Þetta hefur svo sem engin bein áhrif núna. Við hljótum að beina því mjög eindregið til stjórnvalda að þau sjái nú að sér. Taki mark á þessu áliti og hefji þegar í stað undirbúning að því að breyta íslenskri löggjöf í takt við þetta álit,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Er að þínu mati tímaspursmál hvenær innflutningur á fersku innfluttu kjöti verði leyfður?

„Já, það er bara tímaspursmál,“ segir Andrés.

Íslensk stjórnvöld hafa nú tvo mánuði til að bregðast við álitinu en að öðrum kosti getur Eftirlitsstofnun EFTA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.


Tengdar fréttir

Álit ESA í samræmi við skoðanir Haga

"Þetta álit er í fullu samræmi við álit okkar lögmanna,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, um nýtt álit ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem fram kemur að íslensk löggjöf sem takmarkar innflutning á fersku kjöti er brot á EES-samningnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×