Innlent

Laxarnir gætu verið úr mismunandi sleppingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Allur lax sem alinn er við Ísland er af norsku kyni.
Allur lax sem alinn er við Ísland er af norsku kyni. Vísir/Sigurjón
Rannsókn Veiðimálastofnunar fyrir Fiskistofu á löxum veiddum í Patreksfirði í sumar hefur leitt í ljós að laxarnir voru eldislaxar af norskum uppruna, líkt og lax sem notaður er í sjókvíaeldi á Íslandi. Ekki er hægt að útiloka að laxarnir hafi komið úr mismunandi sleppingum.

Laxarnir voru allir með nokkuð þroskaða kynkirtla og virðast flestir hafa stefnt á hrygningu í haust. Tilkynnt var um slys þegar eldislaxar sluppu úr sláturkví Fjarðarlax í nóvember á síðastliðnu ári. Fyrirtækið tilkynnti að 200 laxar hefðu sloppið. Frá þessu er greint á vef Veiðimálastofnunar.

 

Um miðjan júlí bárust Veiðimálastofnun 20 laxar úr veiði í Patreksfirði til upprunagreiningar og til greiningar á kynþroska. Rannsókn á erfðasamsetningu og útliti laxanna staðfesti eldisuppruna fiskanna. Stærð kynkirtla benti til að hluti þeirra stefndi á hrygningu í haust, mögulega allir.

Í lok ágúst bárust Veiðimálastofnun 45 laxar til rannsóknar úr veiði í Patreksfirði. Ekki þótti ástæða til að erfðagreina laxana þar sem 43 þeirra báru greinileg eldiseinkenni. Stærð kynkirtla benti til að allir stefndu þeir á hrygningu í haust. Holdastuðull fiskanna var hærri í ágúst en í júlí, öfugt við það sem búast hefði mátt við þar sem laxinn var í litlu eða engu æti þegar hann var veiddur. Ekki er hægt að útiloka að laxarnir hafi komið úr mismunandi sleppingum. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að eldislaxar með verra holdafar leiti fyrr upp í ár.

Í tilkynningu frá Veiðumálastofnun kemur fram að reynsla Norðmanna og Skota af sjókvíaeldi á laxi sýni að lax sleppur úr kvíum og eldislax blandast villtum laxastofnum. Nú hafi kynþroska norskur eldislax sloppið úr eldi á Íslandi. Stefnt sé að auknu laxeldi og því megi gera ráð fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig og verði tíðari.

 

„Eldislaxinn sem veiddist í Patreksfirði var með áberandi ytri einkenni enda slapp hann sem fullorðinn lax. Hins vegar getur unglax sem sleppur úr sjókví verið án ytri einkenna er hann leitar úr hafi í ár til að hrygna. Slíkur einkennalaus lax er stór hluti þess eldislax sem gengur í ár í Noregi og getur hann leitað í ár í mikilli fjarlægð frá eldisstöð,“ segja forsvarsmenn Veiðimálastofnunar.

Brýnt sé að fylgjast með mögulegum áhrifum eldislax á íslenska stofna, meðal annars erfðablöndun og umfangi hennar.

„Veiðimálastofnun hefur með styrk frá AVS unnið skýrslu þar sem kynnt er erfðafræðileg aðferð til að greina eldislax frá villtum löxum og greina erfðablöndun milli þeirra. Í skýrslunni er einnig gerð tillaga að því hvernig vakta megi möguleg erfðafræðileg áhrif vegna laxeldis.“

    

Skýrslurnar sem vísað er í má nálgast hér að neðan.


Tengdar fréttir

Alvarlegar athugasemdir við skýrslu um fiskeldi

Landssamband veiðifélaga gerir alvarlegar athugasemdir við skýrslu nefndar um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi. Sérstaklega hvað varðar merkingar á eldislaxi.

Þrítugföldun útflutningsverðmæta á áratug

Á aðeins áratug hafa viðskipti með sjávarafurðir á milli Íslendinga og Rússa tugfaldast. Rússneski markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir vex hvað hraðast. Norsk fyrirtæki fluttu 300.000 tonn af sjávarafurðum til Rússlands í fyrra og innflutningsbann því áhyggjuefni þar.

Íslensk fisksölufyrirtæki uggandi vegna viðskiptabanns

Áhrif viðskiptabanns Rússa á Norðmenn getur haft mikil áhrif á íslensk fyrirtæki í fiskframleiðslu og útflutningi á fiski. Þetta segir Jón Steinn Elíasson formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Eldisfiskur veiðist í ósi við Patreksfjörð

Fiskur, sem að öllum líkindum slapp úr eldiskvíum Fjarðalax á Patreksfirði síðasta vetur, veiðist nú í Ósárósi í botni fjarðarins. Laxveiðimenn segja þetta sanna að eldisfiskur lifi af í hafinu. Fjarðalax segir þetta engin áhrif hafa á laxastofninn.

Skýringar fiskeldisfyrirtækja ótrúverðugar

Orri Vigfússon, formaður NASF Verndarstjóðs villtra laxastofna, hefur óskað eftir því við umhverfis- og auðlindaráðherra, að tafarlaust verði farið í óháða rannsókn á því fiskeldi sem nú fari fram á Vestfjörðum.

200 eldislaxar sluppu úr kví

Lítil slysaslepping varð hjá Fjarðalaxi í nóvember þegar 200 eldislaxar sluppu úr sláturkví. Enginn lax veiddist aftur. Eldisstjóri fyrirtækisins segir útilokað að laxinn gangi í laxveiðiár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×