Innlent

„Ég hef enga vitneskju um hvað kom fyrir barnið mitt“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Umboðsmaður barna segir hafið yfir skynsamlegan vafa að slegið hafi verið á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga.
Umboðsmaður barna segir hafið yfir skynsamlegan vafa að slegið hafi verið á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga. Vísir/GVA

Móðir barns sem var á 101 leikskóla segist lifa í óvissu um hvort dóttir hennar hafi verið beitt harðræði. Myndband náðist á síðasta ári af starfsmanni skólans rassskella ómálga barn. Umboðsmaður barna hefur gagnrýnt ákæruvaldið harðlega fyrir að láta málið niður falla eftir rannsókn. Umboðsmaður segir hafi yfir skynsamlegan vafa að ómálga barn hafi verið beitt ofbeldi.



„Ég hef enga vitneskju um hvað kom fyrir barnið mitt,“ segir Sif Jóhannsdóttir, móðir stúlku sem var á leikskólanum. „Dóttir mín var á þessum skóla í um ár en hún útskrifast einum mánuði rúmum eða tveimur áður en málið kemur upp.“



Hringdi sjálf í lögregluna

Sif segist í fyrst hafa heyrt af málinu í gegnum fjölmiðla en í kjölfarið hafi hún haft sjálf samband við lögreglu. „Ég hafði sjálf samband við lögreglu þegar málið kom upp og spurði hvort ég gæti eða hvort ég ætti einhvern rétt á því að stíga fram og láta rannsaka hvort það hafi eitthvað komið fyrir barnið mitt,“ segir hún.



Ekkert var hins vegar hægt að gera þar sem dóttir Sifjar hafði hætt í skólanum áður en að sumarstarfsmaðurinn sem á endanum greindi frá harðræðinu hóf störf. Engin gögn voru því til sem snertu dóttur hennar beint en starfsmennirnir sem sakaðir voru um verknaðinn höfðu verið við störf á meðan skólagöngu dóttur hennar stóð.



„Í rauninni ekki höfum við ekkert í höndunum. Það er rosalega óþægilegt. Eini aðilinn sem hafði eitthvað í höndunum voru foreldrar barnsins sem náðist á myndband,“ segir Sif.

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, gagnrýndi harðlega ákvörðun ákæruvaldsins að láta málið niður falla.Vísir / Pjetur

Málið látið niður falla

Eftir að foreldrar barnsins sem sást beitt harðræði á myndbandinu kærðu málið fór það til rannsóknar hjá lögreglu. Niðurstaðan var hinsvegar að láta málið niður falla þar sem að ekki hafi verið „um að ræða háttsemi sem hafi verið til þess fallin að skaða barnið andlega né líkamlega“. 



Umboðsmaður barna hefur hinsvegar bent á að eftir að barnaverndarlögum var breytt árið 2009 sé ekki gerð krafa um að harðræði valdi skaða til að það sé bannað. Vísir hefur einnig fjallað um að í nefndaráliti sem lagt var fram samhliða lagabreytingunum sé sérstaklega vísað til þess að rassskellingar teljist til ofbeldis.



Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík telur málið ekki aðeins varða börnin á 101 leikskóla heldur öll leikskólabörn. Í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér eftir að umboðsmaður skilaði áliti þar sem kom fram að málið væri litið alvarlegum augum. Þá kom fram að málið varðaði skýlausan rétt barna til að búa við öryggi í leikskólum án þess að velferð þeirra væri stofnað í hættu.



Vöknuðu upp spurningar

Sif segir að eftir að málið hafi komið upp hafi áhyggjurnar sótt á hana. „Það veldur okkur ofboðslega miklum áhyggjum,“ útskýrir Sif. Hún segir að dóttur sinni hafi gengið ill að aðlagast leikskólavistinni; hún hafi grátið mikið og verið óhamingjusöm. 



„Við skrifuðum allar okkar tilfinningar bara á foreldralegt stress. Tókum ekki mark á því,“ segir hún. „Ég náttúrulega veit ekki hvort það kom eitthvað fyrir barnið eða ekki en maður hefur náttúrulega miklar áhyggjur af því að það hafi komið eitthvað fyrir.“

Sif bendir á að margir foreldrar séu í sömu stöðu og hún. Mynd tengist frétt ekki beint.Vísir / Vilhelm

Fær aldrei svör

Sif segist reikna með því að fá aldrei svör við því hvort eitthvað hafi komið fyrir dóttur sína á leikskólanum. „Þetta eru ómálga börn þannig að það er engu hægt að svara. Ég þarf í raun að búa við þá óvissu um hvort það hafi eitthvað komið fyrir dóttur mína eða ekki. Ég mun aldrei fá svör við því.“



Hún segist hafa íhugað að reyna sjálf að leita svara. Til að mynda með því að hringja í fyrrverandi starfsmenn skólans. „Ég hef oft íhugað hvort ég ætti að hringja í einhverja  af starfsmönnunum sem voru í skólanum til að spyrja og reyna að fá einhver svör en auðvitað er það ekki hægt,“ segir hún.



Fleiri foreldrar eru í sömu stöðu og Sif. „Við þurfum öll að lifa við þessa óvissu um að vita ekki hvort barnið okkar hafi orðið fyrir einhverjum harmi eða ekki,“ segir hún og heldur áfram: „Við erum ansi margir foreldrar í þessari stöðu því að þeir starfsmenn sem um ræðir og þeir sem að voru sakaðir um eitthvað voru búnir að vera þarna í lengri tíma. Skólinn er búinn að vera þarna í fjöldamörg ár.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×