Viðskipti innlent

Verð á hrámjólk verður það sama fyrir alla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Samkeppniseftirlitið sektaði MS í liðinni viku um 370 milljónir króna vegna brots á samkeppnislögum.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS í liðinni viku um 370 milljónir króna vegna brots á samkeppnislögum. Vísir/Stefán
Mjólkursamsalan hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að verð á ógerilsneyddri mjólk verði það sama til allra aðila frá og með mánudeginum 29. september. Skiptir þá ekki mál hvort um sölu til óskyldra aðila er að ræða eða til fyrirtækja sem eru í framleiðslusamstarfi með MS.

Í yfirlýsingunni kemur fram að um varúðarráðstöfun sé að ræða meðan á áfrýjunarferli stendur vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins um að MS hefði brotið samkeppnislög og skyldi greiða 370 milljónir í sekt

Breyting á verðlagningu felur þó ekki í sér „viðurkenningu á málflutningi eða niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, sem Mjólkursamsalan hafnar,“ eins og segir orðrétt í yfirlýsingunni en hana má sjá í heild sinni hér að neðan.

Verð á ógerilsneyddri mjólk í lausu máli verður hið sama frá og með mánudeginum 29.september í öllum viðskiptum MS hvort sem um er að ræða sölu til óskyldra aðila eða miðlun á mjólk til fyrirtækja í framleiðslusamstarfi með MS. Um er að ræða varúðarráðstöfun, sem gildir meðan á áfrýjunarferli stendur eftir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem kynnt var í síðustu viku. Í henni felst engin viðurkenning á niðurstöðu eftirlitsins í málinu sem verður vísað til til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Kjarni málsins er deila um með hvaða hætti búvörulög heimila fyrirtækjum í nánu eigna- og framleiðslusamstarfi að miðla á milli sín verðmætum þegar þau stilla saman framleiðslukerfi sín til að ná fram hámarkshagræðingu. Á grundvelli búvörulaganna 2004 hafa Mjólkursamsalan, Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög gert þetta með því að miðla hráefni milli sín á innkaupsverði án álagningar. Um þetta er nú deilt eftir að fram kom ný túlkun Samkeppniseftirlitsins á búvörulögum, sem hafa verið í gildi hér í 10 ár.

Meðan ekki hefur verið skorið úr um gildi þessarar nýju túlkunar hafa fyrirtækin ákveðið að nota ekki þetta fyrirkomulag og gera upp þetta samstarf á öðrum sviðum framleiðslu einstakra mjólkurafurða, geymslu og dreifingu þeirra en í verðlagningu á mjólk. Þetta er gert í varúðarskyni vegna réttarstöðu á tímabili áfrýjunarinnar. Þetta þýðir að á meðan málinu stendur verður reikningsfært hráefnisverð milli aðila í samstarfinu hið sama og til óskyldra aðila sem standa utan samstarfs. Það verð er í samræmi við ákvörðun verðlagsnefndar búvöru um verð fyrir ógerilsneidda mjólk í lausu máli sem tók gildi 1. apríl 2014. Innifalið í því verði er hlutdeild í áföllnum kostnaði við flutning og dreifingu, rannsóknir, gæðaeftirlit og sameiginlegan kostnað. Þetta verð gildir frá og með mánudeginum 29. september 2014 í öllum viðskiptum MS á þessum markaði.

Sem fyrr segir felur þessi breyting ekki í sér viðurkenningu á málflutningi eða niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, sem Mjólkursamsalan hafnar.


Tengdar fréttir

Vill breyta lögum verði úrskurður Samkeppniseftirlits staðfestur

Hanna Birna Kristjánsdóttir, ráðherra neytendamála, telur rétt að breyta lögum ef úrskurður Samkeppniseftirlitsins verður staðfestur fyrir dómstólum. Stríðir gegn almennri hugsun um hvernig samkeppni á að virka, segir ráðherrann.

Ætlar ekki að biðja neytendur afsökunar strax

"Mjólkursamsalan á allt undir velvild og tryggð og trúnaði við neytendur. Ef fyrirtækinu verður á í messunni þá vitaskuld biðst það afsökunar. Við teljum hins vegar að Samkeppnisefitrlitið hafi í þessu máli farið villu vegar,“ segir Einar Sigurðsson forstjóri MS.

Samkeppnisbrot Mjólkursamsölunnar kalli á endurskoðun búvörulaga

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að samkeppnislagabrot Mjólkursamsölunnar kalli á tafarlausa endurskoðun búvörulaga. Hann segir ljóst að neytendur hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna þessa og segir nauðsynlegt að Mjólkursamsölunni verði gert að keppa á sömu forsendum og aðrir.

Áætlar tjón sitt 200 milljónir króna vegna brota MS

Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú og stofnandi Mjólku áætlar að fyrirtæki á sínum vegum hafi tapað 200 milljónum króna vegna samkeppnisbrota Mjólkursamsölunnar (MS).

MS beggja vegna borðsins

Tveir frá MS sitja í sex manna opinberri verðlagsnefnd búvara sem lögum samkvæmt ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu og tekur einnig á móti kvörtunum frá þeim sem starfa í greininni.

Þykir ekkert að tvöföldu verði

Þess er minnst nú að fyrir tíu árum varð Alþingi að vilja þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar, og samþykkti að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði væri heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga.

„Eðlilegt að Mjólka greiddi hærra verð“

Egill Sigurðsson, formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar, telur eðlilegt að fyrirtæki utan MS borgi hærra verð fyrir mjólkina en aðrir aðilar á markaði. "Fullyrði að úrskurður Samkeppniseftirlitsins er byggður á misskilningi,“ segir Egill.

MS sektað um 370 milljónir króna

Samkeppniseftirlitið lítur brot MS á samkeppnislögum alvarlegum augum. Niðurstaðan kemur fyrirtækinu á óvart og hyggst það áfrýja málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×