Innlent

Barnabætur vega ekki upp hækkun á verði matvæla

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Bjartrar framtíðar segir hópa láglaunafólks fá engar bætur vegna fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti á matvæli.
Formaður Bjartrar framtíðar segir hópa láglaunafólks fá engar bætur vegna fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti á matvæli.
Formaður Bjartrar framtíðar segir hækkun barnabóta ekki duga til að bæta efnaminni fjölskyldum upp hækkun á verði matvæla vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Nær hefði verið að hækka persónufrádrátt sem gagnast hefði öllum. Þá endurspegli fjárlagafrumvarpið rangar áherslur með stórum útgjöldum til skuldaleiðréttingar í stað þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir auknum tekjum upp á 11 milljarðakróna vegna hækkunar neðra þreps virðisaukaskatts úr 7 prósentum í 12. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um 8 milljarða vegna lækkunar efra þreps virðisaukaskattsins úr 25,5 prósentum í 24 prósent.

Þetta þýðir að nettótekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts hækka um 3 milljarða króna vegna breytinga á skattinum. Til að mæta auknum útgjöldum heimilanna vegna matarinnkaupa við hækkun neðra þreps virðisaukaskattsins verður barnafólki bætt það sérstaklega með hækkun barnabóta upp á einn milljarð króna.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar segir breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu ekki fela í sér einföldun á kerfinu. Þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar séu vegna hækkunar á verði matvæla dugi ekki til.

„Barnabætur ná ekki til allra efnalítilla. Til dæmis er einn galli á barnabótum að stór hópur eins og umgengnisforeldrar sem ala upp börnin sín en eru ekki með lögheimili þeirra fá ekki barnabætur. Svo dæmi sé tekið. Og einstæðingar með lítið milli handanna fá heldur ekki barnabætur. Þannig að ég hefði talið að það hefði verið skynsamlegra að fara í hækkun á persónuafslætti eða eitthvað slíkt,“ segir Guðmundur.

Þá hefði Björt framtíð viljað að tollar á innfluttum matvælum yrðu lækkaðir til að auka samkeppni á matvælamarkaði. Það sé greinilegt á fjárlagafrumvarpinu að fjármunir séu til og þeim ætti að verja í ríkari mæli til uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu, menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Þá bíði stór viðhaldsverkefni í vegagerð.

„Og greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég hefði frekar viljað sjá af þessum peningum væri varið í þessa átt, okkur og komandi kynslóðum til hagsbóta. Í staðinn fara gríðarlegar upphæðir í þessar skuldaleiðréttingar og ég tel það endurspegla rangar áherslur,“ segir Guðmundur.

Vaxtagreiðslur af lánum verða þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á næsta ári á eftir heilbrigðis- og og velferðarmála, eða 84 milljarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×