Golf

Birgir Leifur fer vel af stað

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birgir Leifur, hér á Íslandsmótinu í höggleik.
Birgir Leifur, hér á Íslandsmótinu í höggleik. Vísir/Daníel
Birgir Leifur Hafþórsson lék frábærlega á fyrsta keppnisdegi Willis Masters í dag en mótið er hluti af Nodrea atvinnumótaröðinni.

Birgir Leifur sem varð Íslandsmeistari í höggleik fyrr í sumar lék frábært golf á fyrsta keppnisdeginum en hann fékk sex fugla á seinni 9 holunum á Kokkedal vellinum í Danmörku.

Birgir lék seinni níu holurnar á 30 höggum og hringinn á 67 höggum, fimm höggum undir pari eftir að hafa fengið einn fugl og tvo skolla á fyrri níu. Birgir Leifur er í 9. sæti á mótinu, fjórum höggum á eftir efsta manni.

Axel Bóasson úr Keili og Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum eru einnig meðal þátttakenda á mótinu.

Axel byrjaði daginn vel og var þremur höggum undir pari eftir fjórtán holur en fékk tvo skolla á síðustu fjórum holunum og lauk leik í dag á einu höggi undir pari.

Ólafur átti ekki góðan dag en hann byrjaði á tveimur skollum og lék í heildina á sex höggum yfir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×