Handbolti

Vilja að ÍSÍ beiti sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Vísir/Stefán
Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, svaraði loks erindi HSÍ með formlegum hætti í gær. Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segir þó ekkert nýtt í svari IHF.

IHF tók nýverið þá ákvörðun að hleypa Þýskalandi inn á HM í Katar og afturkalla um leið sæti Eyjaálfu í keppninni en Ástralía hafði unnið sér það inn.

Ákvörðun IHF um að veita Þýskalandi keppnisrétt hefur vakið sterk viðbrögð hér á landi enda tilkynnti Handknattleikssamband Evrópu, EHF, að Ísland væri fyrsta varaþjóð fyrir Evrópu inn á HM.

„Í raun var þetta bara sama svar og síðast,“ sagði Guðmundur og vísaði til yfirlýsingar IHF sem birtist í síðustu viku. „Þeir töldu sig hafa haft rétt við og vísuðu til breytingar á reglugerð sem gerð var 30. maí. Þeir halda sig við það.“

HSÍ svaraði með því að gefa út yfirlýsingu þar sem fram kom að enginn fundur hafi verið haldinn af svokölluðu IHF ráði (e. council) þann 30. maí og að endanlega ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrr en 8. júlí. Þá lá fyrir að Þýskaland féll úr leik í umspilskeppninni fyrir HM.

„HSÍ lítur svo á að þegar breytingar eru gerðar á þátttöku- eða keppnisreglum þá taki þær reglur ekki gildi fyrr en næsta keppni hefst. Á það enn frekar við þegar íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Byggir þetta á almennum lögskýringarsjónarmiðum sem gilda jafnt um reglur IHF sem og aðrar reglur,“ sagði í yfirlýsingu HSÍ.

„Við erum búin að hafa samband við ÍSÍ og ætlum að óska eftir því að þeir beiti sér fyrir því að Alþjóðaólympíunefndin skoði þetta. Árangur á HM veitir þátttökurétt á Ólympíuleikana og því teljum við að þetta sé mál sem varði Ólympíuhreyfinguna.“

„Við höfum heldur ekki útilokað dómstólaleiðina. Þar eru tvær leiðir í boði, annars vegar innan IHF og svo með því að leita til íþróttadómstólsins (e. CAS) í Lausanne. Það er þó gerðardómur og þarf væntanlega samþykki beggja aðila að liggja fyrir svo að dómstóllinn taki málið fyrir. Ég er ekki viss um að IHF samþykki það.“

HSÍ hefur einnig óskað eftir því að EHF beiti sér í málinu en engin viðbrögð hafa fengist við því.

„Formaður og varaformaður EHF eru báðir í ráðinu sem tekur ákvörðunina. Ef þeir ættu að beita sér gegn IHF þyrftu þeir að endurskoða sína ákvörðun,“ segir Guðmundur.

Hann segir að eina handknattleikssambandið sem hafi sýnt málinu áhuga sé það norska. „Þeir eru þeir einu sem vilja kynna sér málið af einhverri alvöru. Það er þó spurning hvort að við köllum eftir stuðningi annarra landa til að EHF beiti sér í málinu.“

Guðmundur segir ákvörðun um að fara dómstólaleiðina þurfi væntanlega að taka innan tveggja mánaða.


Tengdar fréttir

Íþróttaljós: Reglugerðin sem enginn vissi af

Alþjóðahandknattleikssambandið breytti reglunum um hvaða þjóð kæmi til vara ef einhver skyldi ekki fá keppnisleyfi, en lét engan vita. Framkvæmdastjóri evrópska sambandsins lætur ritarann svara spurningum fyrir sig.

Hvorki heyrst frá IHF né EHF

Þrátt fyrir að HSÍ hefði krafist svara fyrir miðnætti hafa engin svör borist frá IHF né EHF varðandi kröfu Íslands um að IHF dragi til baka ákvörðun sína um að úthluta Þýskalandi lausu sæti á Heimsmeistaramótinu í Katar

Laug EHF að handboltaforystu Íslands?

Framkvæmdastjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins leggur til breytingar í þröngum fimm manna hring sem nánast undantekningalaust eru samþykktar. Aum svör Evrópska handknattleikssambandsins til HSÍ.

Svona var reglunum breytt hjá IHF

Varaforseti Handknattleikssambands Evrópu sat fundinn mikilvæga þar sem Þýskalandi var hleypt inn á HM í handbolta.

Ísland á að fara dómstólaleiðina

Ritstjóri þýska vikuritsins Handball Woche telur að handboltaforystan á Íslandi eigi að fara með ákvörðun IHF að hleypa Þýskalandi á HM í Katar fyrir dómstóla.

HSÍ krefst þess að Ísland fái sæti á HM 2015

Handknattleikssamband Íslands hefur krafist þess að Alþjóðahandknattleikssambandið dragi til baka ákvörðun sína að úthluta Þýskalandi lausu sæti á HM í Katar 2015 og úthluti íslenska liðinu sætið líkt og evrópska handknattleikssambandið hafði lofað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×