Handbolti

Útilokum engar dómstólaleiðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Vísir/Stefán
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segir að sambandið sé enn að bíða eftir viðbrögðum Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF.

Í síðustu viku sendi HSÍ beiðni til IHF þar sem óskað er eftir útskýringum á þeim breytingum sem gerðar voru á reglum IHF um HM í handbolta og gerði IHF kleift að hleypa Þýskalandi inn á HM í Katar á kostnað Ástralíu.

Ástralíu var meinuð þátttaka á HM á þeim forsendum að liðið væri ekki nógu sterkt fyrir keppnina og Þýskalandi veittur þátttökuréttur sem var frátekinn fyrir Eyjaálfu.

Ísland var samt sem áður fyrsta varaþjóð Evrópu og hefði samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi áður átt að fá sæti Ástralíu. En þeim reglum var breytt fyrir um mánuði síðan, eins og tilkynnt var í síðustu viku.

„Við höfum óskað eftir svörum frá IHF. Við viljum sjá reglugerðabreytinguna, hvernig hún var orðuð og rökin á bak við hana. En við höfum engin viðbrögð fengið,“ sagði Guðmundur.

Þó svo að svokallað IHF-ráð hafi samþykkt breytingar fimm manna framkvæmdastjórnar segir Guðmundur að HSÍ sé engu að síður að skoða hvort að breytingarnar haldi vatni.

„Ráðið hefur heimild til að breyta en við munum skoða mjög vandlega hvort það standist að breyta reglunum eftir að keppnin er hafin. Ég lít svo á að heimsmeistaramótið hafi hafist með forkeppninni.“

„Það bara getur ekki staðist að það sé hægt að breyta reglum í miðri keppni til að bregðast við því að ákveðið lið sé lélegt. Eða þá reglunum um fyrstu varaþjóð þegar það liggur í raun fyrir hver hún ætti að vera.“

Guðmundur segir HSÍ sé nú að skoða þær dómstólaleiðir sem standi til boða. „Það eru tvö dómstig hjá IHF. Annað tekur á agamálum og öðru slíku og svo er gerðardómur. Við erum að kanna hvort að svona mál myndi falla undir slíkan gerðardóm.“

Aðspurður segir Guðmundur að hann útiloki ekki að HSÍ fari með málið fyrir íþróttadómstólinn í Lausanne (e. CAS). „Við útilokum ekkert því okkur finnst þetta alveg galið,“ segir hann.

„Þetta snýst ekki um íþróttir heldur eitthvað. Okkur finnst afar óíþróttamannslega að öllu saman staðið.“

Arne Elovsson greindi frá þeirri atburðarás sem átti sér stað í aðdraganda reglubreytinganna í samtali við Morgunblaðið um helgina. Guðmundur segir að hann hafi fengið samskonar frásögn frá Elovsson, sem er varaforseti EHF.

„Það liggur fyrir að eftir að Þýskaland drógst gegn Póllandi í undankeppni HM var eitthvað sett í gang. Svo þegar Þýskaland tapaði í umspilinu er allt keyrt áfram.“

Guðmundur segir ljóst að það þurfi að bregðast hratt við enda verður dregið í riðla á sunnudaginn.

„Vandamálið er að við höfum enn ekki fengið reglugerðarbreytinguna í hendur og því vitum við í raun ekki á hverju þetta er allt saman byggt. Við höfum beðið um þessi gögn og er skrýtið að við fáum engin svör.“

„Ég mun kalla aftur eftir svörum í dag og svo munum við setja niður fyrir okkur hvaða möguleikar standa okkur til boða.“


Tengdar fréttir

Íþróttaljós: Reglugerðin sem enginn vissi af

Alþjóðahandknattleikssambandið breytti reglunum um hvaða þjóð kæmi til vara ef einhver skyldi ekki fá keppnisleyfi, en lét engan vita. Framkvæmdastjóri evrópska sambandsins lætur ritarann svara spurningum fyrir sig.

Laug EHF að handboltaforystu Íslands?

Framkvæmdastjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins leggur til breytingar í þröngum fimm manna hring sem nánast undantekningalaust eru samþykktar. Aum svör Evrópska handknattleikssambandsins til HSÍ.

Svona var reglunum breytt hjá IHF

Varaforseti Handknattleikssambands Evrópu sat fundinn mikilvæga þar sem Þýskalandi var hleypt inn á HM í handbolta.

Ísland á að fara dómstólaleiðina

Ritstjóri þýska vikuritsins Handball Woche telur að handboltaforystan á Íslandi eigi að fara með ákvörðun IHF að hleypa Þýskalandi á HM í Katar fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×