Viðskipti innlent

Skapar um 400 ný störf

Randver Kári Randversson skrifar
Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna við Grundartanga í lok maí.
Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna við Grundartanga í lok maí. Vísir/Björn Sigurðsson
Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefur ákveðið að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að Arionbanki muni annast fjármögnun verkefnisins, og að fyrir liggi viljayfirlýsing um kaup á orku frá Landsvirkjun og Orku Náttúrunnar (ON Power).

Hér er um stórt og atvinnuskapandi verkefni að ræða, en talið er að um 400 ný störf geti skapast. Fyrirtækið vonast til að framkvæmdir geti hafist síðar á þessu ári og að verksmiðjan taki til starfa árið 2016.

Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að Ísland hafi orðið fyrir valinu vegna þess að innviðir á sviði framleiðslu og flutninga séu með því besta sem gerist í heiminum og vegna lágs verðs á endurnýjanlegri orku. Það geri fyrirtækinu kleift framleiða vörur sínar með eins umhverfisvænum hætti og mögulegt er. Auk þess er nálægðin við áliðnaðinn á Íslandi talin vera kostur.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir verkefnið fela í sér mikil efnahagsleg tækifæri fyrir Íslendinga, jafnframt því sem tekið sé tillit til umhverfisverndarsjónarmiða. Sólarkísilverksmiðjan sé báðum aðilum til mikilla hagsbóta.


Tengdar fréttir

Tvö kísilver að komast í höfn

Vonir standa til að smíði kísilvera í Helguvík og á Húsavík verði staðfest innan tveggja vikna með því að öllum fyrirvörum vegna samninga verði aflétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×