Innlent

Slegist um humarinn í Þorlákshöfn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það er mikið líf í einu af frystihúsi Auðbjargar í Þorlákshöfn þessa dagana því þar er um 60 manns, flestir skólakrakkar að vinna í humri frá sjö á morgnanna og fram á kvöld og líka er unnið um helgar. Bátar Auðbjargar, Ársæll og Arnar hafa verið á humar- og makrílveiðum og mokað upp þessum tegundum, ekki síst humrinum.

„Við erum langt komnir með okkar kvóta, bara búið að vera  fínn humar og góð veiði, lítið um þessar eyður sem stundum hafa komið, eða dottið niður veiði, það hefur gerst eina viku en annars er bara búin að vera bullandi veiði“, segir Gísli Eiríksson, verkstjóri hjá Auðbjörgu.

En hvað verður um humarinn?

„Heili humarinn fer allur á Spán og á það svæði en halarnir á Kanada og innanlandsmarkað“, bætir Gísli við. Hann segir að mikil eftirspurn sé eftir humri. „Já, gríðarlega mikil og fá færri en vilja, við gætum selt alveg tvöfalt magn. Ástæðan er sú að innanlandsmarkaðurinn kallar eftir humri, það eru sjálfsagt útlendingarnir, sem kaupa humar á veitingahúsum og svo er verið að borða þetta út um allan heim“.

Grunnskóla- og framhaldskólanemendur úr Þorlákshöfn og nágrenni vinna í humrinum og þéna þar góðan pening, eru að fá 150.000 krónur og stundum meira eftir skatta fyrir hálfan mánuð.

„Þau hafa töluvert upp úr þessu, þetta er mikil vinna og þau fá að vinna mikið og fá gott fyrir,“ segir Gísli og bætir því við að það sé mjög skemmtilegt að vinna þegar stemmingin er eins góð og núna á humarvertíðinni í Þorlákshöfn.

„Já, alveg meiriháttar, maður vaknar brosandi og sofnar meðvitundarlaus af þreytu og með bros“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×