Viðskipti innlent

Færeyjaflugið burt úr borginni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways hefur auglýst að Færeyjaflugið flytjist til Keflavíkur eftir sex vikur. Óljóst er hvort þetta er til frambúðar því samgönguyfirvöld eru enn að skoða hvort Færeyingum verði leyft að lenda nýjustu þotum sínum í Reykjavík. 

Fjögurra hreyfla Avro 100-þotur Færeyinga eru stærstu vélarnar sem nota Reykjavíkurflugvöll að staðaldri, hafa verið fastagestir síðustu nítján árin, tvisvar í viku. En brátt munu þær kveðja, Færeyingar eru að hætta notkun þeirra.

Tegundin sem leysir hana af hólmi er Airbus A-319, vél sem fékk viðhafnarmóttökur þegar hún lenti í fyrsta og eina sinn í Reykjavík fyrir tveimur árum. Umsókn um að hún fái að taka við áætlunarfluginu til Færeyja hefur hins vegar ekki enn verið afgreidd.

Airbus-þota Færeyinga lenti á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2012.
Það er augljóslega heit kartafla fyrir íslenska stjórnkerfið hvort leyfa eigi Færeyingum að nota stærri vél á hinum umdeilda Reykjavíkurflugvelli. Færeyingar geta hins vegar ekki beðið endalaust eftir svari og nú eru þeir búnir að auglýsa síðasta flugið frá Reykjavík 22. ágúst næstkomandi. 

Jørgen Holme, forstjóri Atlantic Airways, segir að síðasta Avro-þotan fari úr flotanum í lok ágústmánaðar. „Þegar A-319 kemur inn munum við, þangað til annað verður ákveðið, nota Keflavík."

Jørgen Holme, forstjóri Atlantic Airways.Mynd/Jan Müller.
Spurður hvort þetta þýði endanlegan flutning til Keflavíkur svarar Jörgen að framtíðin sé óljós en tekur þó fram: „Það er enginn vafi á því að við viljum hafa áfram möguleika á að nota Reykjavík". 

Forstjóri Atlantic Airways skýrði Stöð 2 jafnframt frá því að félagið væri að kanna möguleika á að fá minni flugvélartegund en það yrði þó ekki fyrr en næsta vor. 

Úr stjórnkerfinu íslenska fást þær upplýsingar að umsókn Færeyinga sé enn í ferli, Isavia og Samgöngustofa séu í að skoða breytingar á reglum um flugvernd Reykjavíkurflugallar sem gætu opnað á Færeyjaflug með Airbus A-319. 

Það er því enn óvíst hvort hálfrar aldar sögu Færeyjaflugs frá Reykjavk ljúki endanlega eftir einn og hálfan mánuð. Það er enn hugsanlegt að samgönguyfirvöld leyfi Airbus-vélina og svo er líka hinn möguleikinn að Færeyingar fái minni vél eftir eitt ár eða svo.


Tengdar fréttir

Vilja nota Airbus á Reykjavíkurflugvelli

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways óskar eftir því að fá að nota 144 sæta Airbus-þotu í áætlunarflugi sínu milli Reykjavíkur og Færeyja. Þetta yrði stærsta flugvélin sem nýtti Reykjavíkurflugvöll í reglubundnu flugi. Airbus-þota Færeyinga hefur reyndar einu sinni lent á Reykjavíkurflugvelli, í ágústmánuði í fyrrasumar, og fékk þá höfðinglegar móttökur. Færeyska flugfélagið fær aðra Airbus-vél nú í vor og þá þriðju í október. Eldri þotur Færeyinga, af gerðinni British Aerospace, taka 95 farþega, og hafa verið stærstu vélarnar í áætlunarflugi til Reykjavíkur, en Airbus A319 tekur helmingi fleiri, eða 144 farþega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×