Skoðun

Skömm Framsóknarflokksins

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Framsóknarflokkurinn hefur verið duglegur við að taka upp hanskann fyrir rasista undanfarið. Forsætisráðherra birti nýlega pistil þar sem hann réðist harkalega að þeim sem höfðu vogað sér að gagnrýna oddvita flokksins í Reykjavík eftir ummæli hennar um fyrirhugaða mosku. Um ummælin sjálf eða ummæli þeirra, sem í kjölfarið hafa keppst við að úthúða múslimum á kommentakerfunum, sagði forsætisráðherra ekki orð.

Í útvarpinu í gærmorgun biðlaði svo félagsmálaráðherra til fólks að sýna skoðunum annarra umburðarlyndi. Hún bætti svo við að það væri hið eðlilegasta mál að í fjölmenningarsamfélögum yrðu árekstrar. Það er svolítið eins og að segja að nauðganir séu eðlilegur hlutur á útihátíðum. Þessi málflutningur gerir lítið úr ábyrgð þeirra sem halda uppi hatursorðræðu gegn minnihlutahópum. Það er nefnilega ekkert eðlilegt við fordóma og útlendingahatur.

Í alvöru talað. Síðan þetta mál kom í umræðuna hafa hatursfullir Íslendingar úthúðað múslimum á internetinu, og talsmönnum þeirra verið hótað lífláti. Á síðasta ári var svínshausum dreift á lóð fyrirhugaðrar mosku. Þetta er ekkert djók. Það er ekkert hægt að skauta framhjá þessu. Í Noregi voru menn blindir fyrir þessu og 22. júlí 2011 voru 69 ungmenni skotin til bana af manni sem var hræddur við múslima.

Ég óska eftir því að forsætisráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum og lýsi því opinberlega yfir að rasismi og útlendingahatur eigi ekki heima á Íslandi.

Óskar Steinn Ómarsson,

Formaður Bersans – Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×