Skoðun

Traust

Gísli H. Halldórsson skrifar
Það tekur langan tíma að skapa sér traust, ekki síst á vettvangi stjórnmálanna. Allt frá árinu 2006 hef ég starfað sem bæjarfulltrúi fyrir Ísafjarðarbæ. Á þeim tíma hef ég með störfum mínum og formennsku í helstu nefndum bæjarins öðlast mikla og dýrmæta reynslu og þekkingu á störfum bæjarstjórnar og stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar. Á sama tíma hef ég náð að byggja upp traust, bæði meðal pólitískra samherja og andstæðinga, nægilegt traust meðal mótherja minna til margra ára til þess að þeir kjósi að gera mig að bæjarstjóraefni í kosningunum á laugardag.

Fögur fyrirheit

Það er auðvelt að gefa loforð og fögur fyrirheit. Þegar allt kemur til alls snúast sveitarstjórnarkosningarnar þó fyrst og fremst um að trúa fólki fyrir því að bregðast af skynsemi og yfirvegun við breytilegum og ófyrirséðum aðstæðum á komandi árum. Það getur enginn lofað því að grasið verði alltaf grænt og allt leiki í lyndi. Það getur enginn lofað því að ytri efnahagsaðstæður verði alltaf eins og best verður á kosið. Það verður að treysta því að kjörnir fulltrúar bregðist rétt við aðstæðum.

Í blíðu og stríðu

Það sem skiptir máli er að fólkið sem situr við stjórnvölinn standi óhaggað með hagsmunum bæjarbúa í blíðu og stríðu – láti ekki mótbyr, háreisti eða sérhagsmuni villa sér sýn á erfiðum tímum. Það skiptir máli að þeir sem þú kýst séu það sem þeir segjast vera og að þú getir treyst því að þeir vinni í þágu allra bæjarbúa.

Með Örnu Láru, oddvita Í-listans, hef ég átt gott samstarf í bæjarráði á liðnu ári, svo gott að fullt traust ríkir á milli okkar. Á Í-listanum er góð blanda af fólki með mikla reynslu á mörgum sviðum og góðan vilja. Með flestu af þessu fólki hef ég unnið í gegnum tíðina – og gengið það vel. Við höfum skipst á skoðunum og komist að niðurstöðu.

Heilindi

Ég tel mig með mína reynslu eiga fullt erindi í embætti bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar á næsta kjörtímabili. Ég tel mikilvægt að sú reynsla verði nýtt í þágu bæjarbúa með þeim hætti. Ég legg þessa ákvörðun í ykkar hendur kæru kjósendur. Samherjum mínum í Í-listanum treysti ég fullkomlega til að vinna af heilindum, ásamt mér, að velferð Ísafjarðarbæjar.

Ég bið um traust ykkar í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 31. maí. Kjósið Í-listann og þá get ég, ásamt því góða fólki, veitt sveitarfélaginu forystu til næstu fjögurra ára, annars ekki.




Skoðun

Sjá meira


×