Skoðun

Barnafjölskyldur í fyrsta sæti

Helga María Hallgrímsdóttir skrifar
Útgjöld barnafjölskyldna eru há, sérstaklega hjá barnmörgum fjölskyldum. Framsóknarkonur og -menn í Kópavogi setja barnafjölskyldur í fyrsta sæti.  Við teljum góða rekstrarafkomu núverandi meirihluta, sem Framsókn er aðili að, gefa svigrúm til að gera betur við barnafjölskyldur og viljum gera það með ýmsu móti.

Fyrst má nefna aukið framlag til foreldra barna sem eru í gæslu hjá dagforeldrum.  Margir foreldrar myndu gjarnan vilja hafa börnin sín lengur hjá dagforeldrum en geta það ekki af fjárhagsástæðum. Kostnaður foreldra vegna daggæslu hjá dagforeldrum er mun hærri en vegna leikskóladvalar.  Hvert pláss hjá dagforeldri kostar Kópavogsbæ rúmar 46.000 kr. á mánuði en hvert leikskólapláss rúmar 90.000 kr.  Foreldrar greiða um 28.000 kr. fyrir 8 tíma dvöl á leikskóla en um 50.000 kr til dagforeldra. Með auknu framlagi yrði gjaldið sem foreldrar sjálfir greiða dagforeldrum lægra og óskastaðan væri að komast eins nálægt leikskólagjaldinu og mögulegt er.  Foreldrar gætu því valið dvalarstað barna sinna óháð kostnaðarþættinum.  Með þessu móti myndi þrýstingur á leikskólapláss af fjárhagsástæðum minnka.

Setja þarf af stað markvissa áætlun til að fjölga dagforeldrum í Kópavogi.  Það er ekki ásættanlegt að foreldrar þurfi að leita út fyrir bæjarfélagið til þess að fá pláss fyrir börn sín hjá dagforeldrum.

Annað mikilvægt mál fyrir barnafjölskyldur er hækkun systkinaafsláttar af dvalargjöldum barna. Hann viljum við hækka hann úr 30% í 50% af dvalargjaldi annars barns og úr 75% í 100% af dvalargjaldi þriðja barns eða fleiri.  Systkinaafsláttur gildir þvert á dvalarúrræðin, þ.e daggæslu dagforeldra, leikskóla og/eða dægradvöl grunnskóla.

Auk þess viljum við vinna að því að leikskólagjöld lækki til samræmis við það besta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu.

Síðast en ekki síst ber svo að nefna betra frístundakort að upphæð 40.000 kr. fyrir börn og ungmenni til íþrótta- og tómstundaiðkunar, þ.m.t tónlistarnám.  Við teljum að upphæð kortsins eigi að vera án kvaða um tvær greinar og úthlutar fjölskyldan upphæðinni í gegnum rafræna íbúagátt.

Ég hvet ykkur til að setja X við B fyrir barnafjölskyldur!




Skoðun

Sjá meira


×