Skoðun

Húsnæði til leigu!

Valey Erlendsdóttir skrifar
Á Íslandi er húsnæðiskostnaður afar stór hluti af útgjöldum hvers heimilis svo maður tali nú ekki um hlut húsnæðis í öryggi hvers og eins. Á Íslandi er líka stærst hlutfall sjálfseignar í húsnæðismálum miðað við nágrannalönd og þar með minnst hlutfall félagslegs húsnæðis. Því miður hefur reynslan sýnt okkur að í þeim löndum þar sem áherslan á eigið húsnæði er mikil er velferðin lökust.

Hér á landi voru byggðir verkamannabústaðir frá því eftir stríð og svo félagslegar eignaríbúðir frá 1990 til 1999 og þá tóku við viðbótarlán vegna húsnæðiskaupa. Síðan þá hafa húsnæðismál orðið að vandamáli fyrir sífellt stærri hóp þjóðfélagsins. Helst vegna hækkunar á markaðsvirði fasteigna og versnandi kjara. Það litla félagslega húsnæði sem sveitarfélögin eiga núna er bundið ströngum takmörkunum og útilokar þar með marga.

Allar forsendur fyrir áherslu á að eiga sína eigin eign eru breyttar eftir síðasta efnahagshrun. Við getum ekki gert ráð fyrir því að allir eigi góða að sem aðstoði við fyrstu kaup. Við getum heldur ekki gert ráð fyrir að allir vilji kaupa sér fasteign og binda fjármuni sína þannig eða (eins og við búum við hér) taka gríðarlega áhættu með fjármuni sína á lánamarkaði. Við getum þó gert ráð fyrir að eftirspurn eftir leiguhúsnæði muni aukast mikið Við búum núna við svipaða stöðu í húsnæðismálum hér á landi og var fyrir heilli öld síðan í stóru kreppunni, þ.e. ungt fólk í yfirveðsettum eignum með litla bjartsýni í vasanum og svo allir hinir sem keyptu aldrei eða hafa misst sínar eignir og þurfa að leigja á ótryggum leigumarkaði.

Þetta hefur skapað mörgum skelfileg vandræði, neyð og óöryggi, sérstaklega á síðustu árum. Þessi vandi virðist aðeins fara vaxandi og lítið sem ekkert gert til að leysa hann.

Fyrst þarf hugarfarsbreytingu. Við þurfum að endurhugsa almennt viðhorf okkar til leiguhúsnæðis. Leiga er ekki bara tímabundin lausn. Leiguíbúðir eru ekki bara fyrir tekjulága. Leigjandi er ekki annars flokks þjóðfélagsþegn því hann gat ekki keypt sér íbúð  o.sv.frv.

Að tryggja sem flestum öruggt húsnæði á að vera forgangsmál allra sveitarfélaga sem og ríkis. Ekki eingöngu velferðarmál fyrir fámennan hóp tekjulágra einstaklinga. Ef fjölgun  almennra traustra leiguíbúða, er nógu mikil getur það þýtt mun betri lífsgæði fyrir stærri hóp og jafnvel stuðlað að fækkun félagslegra vandamála. Við ættum að taka nágranna okkar Svía og Dani til fyrirmyndar í þessum málum. Þar eru leiguíbúðir farnar að nálgast helming alls húsnæðis og í boði fyrir alla. Þar eru leiguíbúðir ekki eingöngu íbúðir í fjölbýlishúsum, heldur af öllum stærðum og gerðum og engum takmörkunum háðar, s.s. eigna- og tekjumörkum. Þar er einnig lítið um himnháar fyrirframgreiðslur sem skilyrði fyrir leigu eins og tíðkast hér á landi.

Sveitarfélögin ættu að einblína á samstarf við hið opinbera með almennt leiguhúsnæði (t.d. nokkurs konar sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga) og vera þar með leiðandi í lausn á langvarandi húsnæðisvanda og öryggisleysi ansi margra landsmanna, hvort sem það eru einstaklingar, barnafjölskyldur, námsmenn eða öryrkjar. Farsælast væri ef ríkið kæmi að stofnun leigufélags og sveitarfélögin tækju þátt. Hlutdeild Sveitarfélaga í framangreindu sameignarfélagi gæti t.d. verið í formi byggingalóða undir íbúðahúsnæði, niðurfellingu gatnagerðargjalda, almennum rekstri og viðhaldi húsnæðisins o.fl.

Sama hver við erum og hvar við erum þá eru grunnþarfir okkar þær sömu. Með því að tryggja a.m.k. eina þeirra ( heimilisöryggi) verður allt annað miklu auðveldara.






Skoðun

Sjá meira


×