Skoðun

Sjálfakandi bílar og skipulagsmál

Einar Egill Halldórsson skrifar
Núverandi aðalskipulag Reykjavíkur nær til áranna 2010-2030. Líkur eru á að sjálfakandi bílar muni gerbreyta forsendum þess áður en skipulagstímabilið er á enda. Meðal annars gæti þörfin fyrir innanlandsflug og þar með flugvöll í Vatnsmýrinni horfið. Engu að síður hefur þessi tæknibylting sem í vændum er ekki fangað athygli, hvorki skipulagsyfirvalda né þeirra sem nú bjóða sig fram til setu í borgarstjórn.

Svæðið sem telst í ökufæri við höfuðborgina hefur sífellt verið að stækka og um leið fækkar þeim stöðum sem þarf að fljúga til. Í því sambandi er skemmst að minnast flugstöðvarinnar í Stykkishólmi sem aldrei var notuð sem slík. Miklar líkur eru á að með  tilkomu sjálfakandi bíla muni samgöngur gjörbreytast og hugsanlega mun áætlunarflug innanlands á Íslandi alveg leggjast af.

Áhrif sjálfakandi bíla hafa lítt verið rædd hér á landi og alls ekki þegar kemur að skipulagsmálum. Þegar fjallað er um þá er talað eins og ekkert muni breytast annað en að maður þurfi ekki lengur að halda í stýrið. Líklegt er þó að áhrifin á samgöngur og skipulag verði mikil.

Hér verður ekki fjallað um tæknilegu hlið slíkra bíla heldur einungis um áhrif þess á innanlandsflug á Íslandi, ef slíkir bílar yrðu allsráðandi sem líklega er styttra í en margan grunar. Því er spáð að fyrstu bílarnir komi á markað eftir um 10 ár.

Vonir standa til að með sjálfakandi bílum muni umferðarslysum fækka mikið og jafnvel heyra sögunni til, en flest umferðarslys í dag verða vegna mistaka eða gáleysislegrar hegðunar ökumanna. Öryggiskröfur setja hönnun bíla miklar skorður í dag.  Ef umferðarslys verða mjög fátíð í framtíðinni mun útlit og innra skipulag bíla breytast mikið. Gerist það, má hugsa sér að hægt verði að búa til bíla, sem eru þannig búnir að þar fari vel um fólk eins og í þægilegu rúmi.

Þegar komnir verða sjálfakandi bílar, sem eru innréttaðir sem svefnvagnar, verður hægt að leggjast til svefns í slíkum bíl seint að kvöldi t.d. á Eskifirði. Þegar ferðalangurinn vaknar, stendur bíllinn nákvæmlega á þeim stað sem ætlunin er að heimsækja. Um kvöldið, þegar erindum í höfuðborginni er lokið, keyrir bíllinn farþegann á sama hátt til baka,  sem nær þá að mæta  ferskur til vinnu eða í morgunmat með fjölskyldunni. Enginn tími mun fara til spillis í ferðalög, þar sem ferðast er á svefntíma og farþeginn kemur úthvíldur á áfangastað. Þar að auki má ætla að ferðakostnaður verði lægri en í flugi. Erfitt er að sjá flugfélögin keppa við þennan ferðamáta.

Áður en menn fara af alvöru að hugleiða að byggja nýjan flugvöll eða stóra flugstöð, hvort sem  staðsetningin yrði  í Vatnsmýrinni eða annars staðar, þarf fyrst að leiða hugann að því, hvort þau mannvirki verði minnisvarði um skammsýni manna líkt og flugstöðin í Stykkishólmi.

Ef sjálfakandi bílar verða að veruleika mun áhrifanna gæta víða. Mun ég fjalla frekar um áhrif þeirra á samfélagið í öðrum greinum og á facebooksíðunni „Sjálfakandi Bílar“.




Skoðun

Sjá meira


×