Skoðun

Álfurinn og ofbeldið

Hilmar Hansson skrifar
Hin árlega álfasala SÁÁ mun fara fram núna snemma í maí. Ég hef keypt álfinn í mörg ár, en ég ætla að sleppa því þetta árið. Ágóðinn af sölu álfsins mun eflaust duga einræðisherranum, Þórarni Tyrfingssyni, til að skammta sér  margföld byrjunarlaun áfengis og vímuefnaráðgjafa.

Ég ætla ekki að styrkja SÁÁ þetta árið, því ég veit að einræðisherrann fer illa með peninginn. 

Fyrirtæki og stofnanir sem hafa mikla starfsmannaveltu fara illa með peninginn. Starfsmannavelta ráðgjafa hjá SÁÁ er gríðarleg. Ráðgjafarnir eru ýmist reknir eða flæmdir í burtu með andlegu ofbeldi.

Allar tegundir ofbeldis eru skaðlegar, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið. Það er sorglegt að oft er ofbeldið þaggað niður og kemur ekki upp á yfirborið fyrr en gerandinn er dáinn. Þá eru e.t.v. skrifaðar bækur eða skýrslur. Nýlegt dæmi er bókin, „Hljóðin í nóttinni“ sem m.a. greinir frá ofbeldi kennara í Laugarnesskóla. Annað nýlegt dæmi er frá grunnskóla Grindavíkur. Þar er gerandinn ennþá ofar moldu og virðist eineltið engan endi ætla að taka.  

 

Ég vann hjá SÁÁ og sá ofbeldið þar með eigin augum og varð einnig sjálfur fyrir því. Mig undrar hve lengi þetta ástand hefur viðgengist hjá SÁÁ og ég spyr mig hvort heilbrigðisyfirvöld ætli ekki að bregðast við. Vilja skattgreiðendur og kaupendur álfsins að féð fari í ofbeldiskúltúrinn hjá SÁÁ?

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×