Viðskipti innlent

Sýkna Kristjáns Arasonar staðfest

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Arason er kominn í þjálfarateymi meistaraflokks karla í handboltanum á nýjan leik.
Kristján Arason er kominn í þjálfarateymi meistaraflokks karla í handboltanum á nýjan leik. Vísir/Daníel
Kristján Arason þarf ekki að greiða slitasjórn Kaupþings rúmlega hálfan milljarð króna.  Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness sem sýknaði Kristján Arason af kröfum Kaupþings í júlí í fyrra.

Kristján, sem var á sínum tíma yfirmaður eignastýringar Kaupþings, var krafinn um 534 milljónir króna ásamt vöxtum af slitastjórn bankans vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Kristján tók lánin í eigin nafni en færði hins vegar skuldina yfir í einkahlutafélagið 7 hægri ehf. í febrúar árið 2008. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta í desember tveimur árum síðar. Engar eignir fundust í búinu. Skuldin við Kaupþing stóð þá í rúmum tveimur milljörðum króna en Kristján var hins vegar í persónulegri ábyrgð upp á 534 milljónir.

Í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafi verið sýnt fram á að Kristján hafi valdið bankanum bótaskyldu tjóni með háttsemi sinni. Kaupþing þarf að greiða Kristjáni 800 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.


Tengdar fréttir

Kristján Arason sýknaður

Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu hjá Kaupþings, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknaður í máli slitastjórnar bankans gegn honum. Kristjáni var stefnt til að greiða nokkur hundruð milljóna króna skuld vegna hlutabréfakaupa í bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×