Viðskipti innlent

Kristján Arason sýknaður

Kristján er fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og þjálfaði meistaraflokk FH þangað til í fyrravor.
Kristján er fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og þjálfaði meistaraflokk FH þangað til í fyrravor.
Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu hjá Kaupþings, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknaður í máli slitastjórnar bankans gegn honum. Kristjáni var stefnt til að greiða 534 milljóna króna skuld vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Kristján tók lánin í eigin nafni en færði hins vegar skuldina yfir í einkahlutafélagið 7 hægri ehf. í febrúar árið 2008. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta í desember tveimur árum síðar. Engar eignir fundust í búinu. Skuldin við Kaupþing stóð þá í rúmum tveimur milljörðum króna en Kristján var hins vegar í persónulegri ábyrgð upp á 534 milljónir.

Í dómnum segir að lánssamningar Kaupþings við 7 hægri ehf., sem samþykktir voru af Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, og undirritaðir af tveimur framkvæmdastjórum á fyrirtækjasviði Kristjáns, séu skuldbindandi fyrir bankann að lögum.

Þá segir ennfremur að Kristján hafði „réttmætar ástæður til að ætla að forstjóri Kaupþingssamstæðunnar hefði umboð til að samþykkja yfirfærslu lána hans til 7 hægri ehf. og lausn hans undan persónulegri greiðsluskyldu, sem og lausn hluta hlutafjáreignar stefnda undan veðböndum. Vísast um rök fyrir þeirri niðurstöðu til þess sem áður hefur verið rakið. Þá verður samkvæmt framangreindu ekki á það fallist að það hafi verið ólögmætt eða ámælisvert hjá stefnda [Kristjáni, innsk.blm.] að óska eftir yfirfærslunni og veðbandslausninni, en sjálfur tók hann engan þátt í að heimila þá löggerninga af hálfu bankans.“

Slitastjórninni var gert að greiða 2,5 milljónir í málskostnað.

Lesa má dóminn hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×