Skoðun

Skuggi

Massimo Santanicchia skrifar
Skuggahverfið teygir sig með norðurströnd miðborgar Reykjavíkur, umvafið Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg. Uppbygging þess hófst árið 2003 og nú, árið 2014, eru síðustu turnarnir við það að rísa.

Bygging Skugga hófst með því að þurrka alla tengingu við fortíðina út með því að rífa gömlu sögunarverksmiðjuna Völund, ljómandi dæmi um iðnaðararf Reykjavíkur, og önnur lítil íbúðarhús úr timbri. Réttlætingin var valfrelsi og “vöxtur”. Og ef vöxtur er mældur í hæð er Skuggi vissulega afburðadæmi. Hæsti turninn er 18 hæðir meðan meðalhæð bygginga í miðborginni eru þrjár hæðir.

Skuggi er söluvara. Þar eru seldir töfrar miðborgarinnar og útsýni til náttúrunnar, í þessu tilfelli Esju, án samþykkis almennings. Töfrarnir og útsýnið voru gerð að söluvöru með formúlunni „mið-borg-lúxus-íbúðir-með-útsýni”. Stærðarhlutföll Skugga skera á tengslin við borgina sjálfa og tengslin milli þess hluta borgarinnar sem eftir stendur og náttúrunnar: þetta er ójöfnuður á aðgangi að rými og brot á jöfnum rétti okkar allra til borgarinnar. Skuggi skapar einnig félagslega spennu og gremju meðal okkar, ekki aðeins vegna þess að þyrpingin er að eyðileggja eitt besta útsýnið úr 101, útsýnið frá Hallgrímskirkju niður Frakkastíg, heldur einnig vegna þess að hverfið er áþreifanleg framsetning þess að sumir borgarar hafi meiri rétt en aðrir. Skuggahverfið er í raun einvörðungu byggt sem lúxusíbúðaþyrping, engri annarri starfsemi er leyft að vera hluti af byggðinni.

Í janúar 2009 fordæmdi Hjálmar Sveinsson byggingu af þessu tagi í borginni í greininni „Skipulag auðnarinnar” í Tímariti Máls og Menningar. Hann vann okkur á sitt band með frábærum orðum sínum:  „Þegar [… þéttingarstefnan] kom til framkvæmdar reyndist hún ekki hafa neitt með lífsgæði að gera; bætt almenningsrými, framúrskarandi hönnun, félagslegan jöfnuð eða ábyrga umhverfistefnu. Í framkvæmd varð hún frítt spil fyrir fjárfesta og byggingarverktaka.” Hann var aðallega að vísa til Höfðatorgs, en hversu mikið hefur í raun breyst? Höfðatorg er nú aftur að þenjast út… 

Húsaþyrpingin í Skuggahverfi kallar á umræðu um gott verklag við hönnun borgar. Jarðhæðin er tómur veggur sem umlykur bílastæðahús en skilur ekkert pláss eftir fyrir aðra starfsemi. Það eru engin „augu á götunni“, eins og Jane Jacobs myndi skilgreina litlar búðir og starfsemi meðfram gangstéttum borga, sem mynda grunn að öruggu og félagslegu umhverfi (Jacobs, 1961). Ekkert sem gæti komið á mannlegum-félagslegum-efnislegum tengslum milli þess sem er innan við og þess sem er utan við byggingarnar er til staðar meðfram jaðri Skugga. Við erum í miðbænum, á sögulega frjóu svæði sem eitt sinn veitti fólkinu sem bjó í kring vinnu og tekjur. Nú er þetta þyrping húsa sem útiloka það umhverfi sem jafnframt telst vera hennar helsti kostur. Rofið er algjört á tengslunum við nánasta umhverfi og þá götu sem fyrir er; aðalaðgangur að turnunum er um þeirra eigin innra einkatorg með eftirlitsmyndavélum, sem enn frekar draga fram aðskilnað þeirra frá hinum hluta borgarinnar.

Það er mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að breyta Skugga í dag. En við getum engu að síður stöðvað eða a.m.k. breytt því sem á eftir að koma. Og vegna þess að framkvæmdirnar hafa áhrif á svo marga ættum við að vera með í ákvarðanatökunni. Við ættum a.m.k. að hafa viðeigandi stofnanir sem vinna að almannahag en ekki einkahagsmunum. Það væri fróðlegt að sjá ferlið sem afturkallaði byggingarleyfið. Í dag eru verkefni af þessum toga kynnt sem „voldug vammlaus verkefni” sem við einfaldlega verðum að kyngja (eins og t.d. Álftanesveg). En hvað ef þessi tegund verkefna væri kynnt með auðmýkri hætti. Hvað ef verktaki yrði vinsamlega að útskýra fyrir okkur hvað fyrir honum vaki? Hvers vegna verkefnið er góð hugmynd fyrir okkur öll? Og biðja okkur um leyfi? Rétturinn til borgarinnar á áfram að vera hjá borgurum hennar og ekki gefinn verktökum; sérstaklega ekki án okkar samþykkis.

Við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að þegar bygging rís í miðborginni er mótun jarðhæðar hennar lífsnauðsynleg. Hugsa verður um jarðhæð, eða a.m.k. stóran hluti hennar, sem vettvang fyrir mismunandi starfsemi (búðir, veitingahús, kaffihús), sem framlengingu á almennu mannlífi sem þegar iðar á gangstéttunum umhverfis. Skuggi kennir okkur einnig að útsýni er gæði í almannaeign og að við verðum að vinna að verndun þess vegna þess að það er hagsmunir samfélagsins alls, ekki aðeins hagsmunir hinna fáu. Skuggi kennir okkur að mannanna verk geta búið til rými – hið óbyggða – sem er jafnvel enn meira virði en hið byggða rými vegna þess að það tilheyrir samfélaginu öllu; það verður gæði í almannaeign og gæði í almannaeign verða að vega þyngra en einkahagsmunir. Þetta ætti að vera leiðbeinandi meginregla (Peñalosa 2007). Við höfum einnig lært það af reynslunni að háhýsi í 101 búa til kraftmikla vindstrengi sem gera rýmið umhverfis óskemmtilegt, jafnvel hættulegt. Loks er ekki hægt að reisa mannvirki og staðsetja í samfélagi án samþykkis þess; jöfnuður í aðgangi að rými þýðir samtal milli fólks sem er hluti af sköpun borgarinnar.

Hvernig við viljum hanna borgirnar okkar er hvernig við viljum vera (Harvey 2008). Hönnun verður því pólitík; hún snýst um það hvaða ákvarðanir við viljum taka. Hún er bygging draumsins um það hvernig á að lifa. Í þessari viðleitni ímyndunaraflsins verðum við að spyrja okkur að því hvað okkur finnst mikilvægt og þetta hjálpar okkur að skilgreina sameiginlega stefnu. En borgarhönnun er ekki abstrakt verkfæri, hún gegnsýrir inngrip mannanna í borginni. Hún snýst um það hversu margir inngangar eiga að vera á byggingu og hvar þeir eiga að vera staðsettir, hversu háar byggingar eiga að vera og fyrir hverja þær eiga að vera. Borgarhönnun er arkitektúr; „fagurfræðilegur ásetningur og sköpun betra umhverfis fyrir lífið eru hin tvö föstu einkenni arkitektúrs. Þessir þættir koma fram í hverri tilraun, sem mark er á takandi, til að útskýra borgina sem mannanna verk.” (Rossi 1984, bls. 21).

      

Hver borg er verk unnið í samstarfi. Við þurfum þetta samtal milli mismunandi hluta og við þurfum einnig virðingu fyrir lýðræðislega kjörnum stofnunum okkar. Þetta tryggir ekki góðan arkitektúr og góð borgarverkefni en þetta takmarkar þau mistök sem geta verið fylgifiskur öfga. Fyrst og fremst snýst þetta um það að tryggja mikilvægi þess sem fólk velur í því ferli að búa til borg. Við þurfum að hafa yfir skipulagstækjum að ráða sem tala ekki einfaldlega um magn og umferð heldur geta byggt upp betri lífsgæði með því að bæta opinber rými, með því að vernda og bæta umhverfið og ofar öllu að vinna í átt að félagslegu réttlæti.

„Að sækjast eftir félagslegu réttlæti gengur að því sem gefnu að til sé félagsleg eining og vilji til að kæfa langanir, þarfir og þrár einstaklingsins fyrir einhvern almennari málstað, svo sem félagslegan jöfnuð eða umhverfisréttlæti.” (Harvey 2005, bls. 41).

Með því að endurhanna reglurnar sem búa borgina til, endurhönnum við okkur sjálf. Þetta er stöðugt ferli sem er grundvöllur þess að búa til borg. Borgin sem við höfum byggt á síðustu árum er ekki borg almenningssvæða heldur borg vega og landamæra, borg með einbýlishúsum sem stungið er inn í stærra grænt kerfi, sem frekar þjónar þeim tilgangi að vera stuðpúði en útivistarsvæði. Þetta er sundurslitin borg. Þetta er borg þar sem offramboðið sem fjármálabólan skapaði var hagnaður sem kom fáum til góða (Ólafsson & Kristjánsson 2010). Stjórnmálamenn kynntu, fjárfestar fjármögnuðu, arkitektar teiknuðu, borgaryfirvöld samþykktu og við keyptum borgina sem við byggðum. Enginn virðist hafa veitt hugmyndinni um samfélag og fólk forgang, hugmyndinni um að almannahagsmunir vegi þyngra en einkahagsmunir. Enginn hugsaði til lengri tíma heldur aðeins um skjótan hagnað, spákaupmennsku, ódýra og hraða hönnun, vegna þess að eftir allt saman þá hefur magn betur en gæði. Svo lengi sem landsframleiðsla vex erum við þess fullviss að við höfum gert það rétta. Í því ferli að hanna borgina okkar erum við öll ábyrg með pólitísku atkvæði okkar, með vali okkar sem neytendur, með lögunum okkar. Við þurfum að endurskoða hvernig við hugsum og endurmeta kjarnann í orðinu frelsi.  

      

Ég vil enda á orðum mæts manns, Enrique Peñalosa, borgarstjóra Bogota:

„Verkefnið er ekki einfaldlega að skapa borg sem starfar með skilvirkum hætti. Verkefnið er að skapa umhverfi þar sem meirihluti fólks getur verið eins hamingjusamur og hægt er. Hamingju er erfitt að skilgreina og ógerlegt að mæla en hún er á endanum það sem öll viðleitni, sameiginleg eða einstaklingsbundin, snýst um. [...] Þótt mannleg hamingja eigi sér margar skilgreiningar og skilyrði, þá snýst hún, með tilliti til búsvæðis, um þætti eins og að geta gengið og leikið sér; vera í snertingu við náttúruna eins og hún kemur fyrir í almenningsgörðum, göngustígum og við vatn; að geta séð fólk og verið með fólki; og að finnast maður vera tekinn með í reikninginn og ekki bara einhver undirmálsmanneskja.” (Peñalosa 2007, bls. 318).

Ég vil hafa rétt til þess að ákveða hvernig borgin mín á að verða. Ég vil kjósa um það hvort við þurfum enn einn turn í Skugga.

Heimildir

Harvey, D. (2005), “A Brief History of Neo-liberalism”, Oxford University Press

Harvey, D. (2008), “The Right to the City”, í “Social Justice and the City”, London, The University of Georgia Press

Jacobs, J. (1961), “The Death and Life of Great American Cities”, New York, Penguin

Ólafsson, S. & Kristjánsson, A. S. (2010), “Income Inequality in a Bubble Economy – The Case of Iceland 1992-2008”, Reykjavík, University of Iceland

Peñalosa, E. (2007), “Politics, Power, Cities“, í Burdett, R og Sudijc D. (eds) 2007 “The Endless City“, London, Phaidon

Rossi, A. (1984), “The Architecture of the City”, Cambridge, the MIT Press

Sveinsson, H. (2009), Skipulag auðnarinnar, Tímarit Máls og Menningar janúar 2009

(https://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/03/nybygging_skyggir_a_sjonlinuna//) (Innlent | Morgunblaðið | 3.3.2014 | 8:38)

https://hjalmar.is/2009/01/15/skipulag-audnarinnar/
Tengdar fréttir

Telja útsýni niður Frakkastíginn verðmætt

Hjónin Jon Kjell Seljeseth og Elín Ebba Ásmundsdóttir hafa um nokkurra ára skeið reynt að fá svör borgaryfirvalda um byggingar háhýsa í Skuggahverfinu í Reykjavík.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.