Skoðun

„Þjóðernispopúlismi“ og náttúruvernd

Einar Gunnarsson skrifar
Heimsfrægar tónlistar- og Hollywoodstjörnur ætla að heiðra okkur með nærveru sinni í dag og gera það sem þeir eru öðrum fremri í, að koma fram. Að sögn ætla þeir að leggja hinni ósnortnu náttúru Íslands lið því þeir telja, eða hafa heyrt, að Ísland sé mun ósnortnara en almennt gerist í þessum heimi.

Ennfremur telja þeir, eða hafa heyrt, að ný lög um náttúruvernd séu mikil blessun fyrir náttúruna af því að það sé búið að leggja í þau gríðarlega mikla vinnu. Þar sem margir ráðherrar umhverfismála hafi náð þverpólitískri samstöðu um hina fullkomnu löggjöf, eða svo er sagt. Ekki efumst við um að þeir hafi kynnt sér lögin í þaula í stað þess að láta sér leiðast á frægðarför sinni um heiminn.

Hér er ástæða til að staldra við. Hið rétta er að óvíða á byggðu bóli hefur jafn fámenn þjóð haft jafn neikvæð áhrif á náttúru landsins sem hún byggir, né á jafn stuttum tíma. Við landnám voru um 40 % landsins skógi eða kjarri vaxin og draup smjör af hverju strái eins og segir réttilega í lýsingu Ara Fróða á landshögum á landnámsöld. Annar orðhagur “íslendíngur“, Halldór Kiljan Laxnes, komst svo að orði í frægri grein um „Hernaðinn gegn landinu“ sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag árið 1970.

„Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum“.

Hin endurnýjaða rödd þjóðlegrar náttúruverndar velur að afneita raunhæfu stöðumati til þess að hefja „náttúru Íslands“ upp á stall glansmynda þjóðernisnáttúruhyggju svo „sækja megi víðtækar valdheimildir“ (með nýjum náttúruverndarlögum og óbirtum reglugerðum) til að uppræta óíslenskar tegundir í náttúru Íslands.

Svo virðist sem hugmyndin sé að vígstaðan og markaðsstaðan sé sterkari með því að tala máli hálfsannleiks og þjóðarlyga um hina ósnortnu Íslensku náttúru ef það mætti koma í veg fyrir annað form af ræktun og landnýtingu en náttúruvernd þar sem varðliðar umhverfisins gæta þess að allt verði eins og það hefur verið, með „kindur á alveg hvínandi beit“ eins og skáldið Guðbergur orðaði það svo skemmtilega.

Ekki er nema von að sumir okkar góðu gesta láti blekkjast af glansbæklingum og einhæfum áróðri talsmanna þjóðlegrar náttúruhyggju og ferðamannaiðnaðar. Því vissulega er landið fagurt og frítt, sérstaklega ef þess er gætt að líta fram hjá þeim miklu hamförum sem ósjálfbær landnýting hefur valdið og hvarvetna blasir við þeim sem til þekkja en eru ekki eru meðvirkir í afneitun á afleiðingar hamfara af mannavöldum. Leikstjórar og poppstjörnur eru ekki allir náttúrufræðingar.

En eru hin heilögu náttúruverndarlög að taka á ósjálfbærri landnotkun eða lausagöngu búfjár sem er ríkjandi landnýting hvort sem um er að ræða stækkandi friðlönd eða land utan friðlanda? Rányrkju sem hefur verið langalvarlegasta umhverfisvandamálið hér á landi í gegnum tíðina. Land er enn beitt óháð því hvort landið þoli beit eða ekki. Svarið við spurningunni er afdráttarlaust nei.

Taka náttúruverndarlögin tillit til annarrar landnýtingar en „náttúruverndar“ og ofbeitar? Svarið er nei. Palli virðist einn í heiminum, nema hvað hann getur lengi seilst djúpt í vasa þeirra sem vilja nýta landið eða rækta skóg í hinni manngerðu eyðimörk eða hrörnandi gróðurleifum.

Munu lögin koma í veg fyrir stórframkvæmdir eins og sumir talsmenn þeirra láta í veðri vaka? Svarið er afdráttarlaust nei.

Munu lögin greiða götu hinnar smáu og fjölbreyttu landnýtingar eða uppgræðslu lands og skóga? Svarið er afdráttarlaust nei. Með lagaheimildum um skrifræðisþrátefli og gjaldtöku er þeim stofnunum sem sömdu lögin gefið sjálfdæmi til ómálefnalegrar afgreiðslu fyrir opinn reikning umsækjenda. Hin stóru og dýru áform munu ekki verða fyrirstaða en fjölbreytni, fjölskyldu- og einkaframtak mun líða fyrir lamandi hönd skrifræðis- og kennivalds.

Er í lögunum ákvæði um að ákveðinni starfsemi sem hefur í för með sér álag á umhverfið sé valinn heppilegasta staðsetning út frá náttúrufari og samfélagi eins og er t.d. í sænsku náttúruverndarlögunum? Nei.

Var almennt tekið mið af norrænni umhverfislöggjöf eins og aðstandendur laganna hafa fullyrt? Nei, nær eingöngu var tekið mið af hinni þröngu sýn valinna skoðanasystkina sem féllu í djúpa hóphugsun, Groupthink. En svo allrar sanngirni sé gætt, einnig af nýlegri norskri sérlöggjöf um „líffræðilegan fjölbreytileika“ en þeim sem er tamast að grípa til þeirra hugtaka beita hreinum hugarburði til að komast að óskaðri niðurstöðu.

Munu lögin leiða af sér uppbyggingu á aðstöðu við fjölmenna ferðamannastaði sem mögulega getur komið í veg fyrir að náttúruperlur verði troðnar niður í svaðið? Nei, enda var það ekki aðal „agenda“lagasmiðanna heldur „baráttan við framandi og ágengar tegundir“ og „jeppamenn“ ásamt því að torvelda þau áhrif manns á náttúruna sem ekki er vernduð með viðjum vanans líkt og ofbeit.

Munu lögin koma í veg fyrir þann gjaldtökusirkus á ferðamannastöðum sem við erum nú að upplifa? Svarið er nei.

Munu lögin stuðla að jákvæðri byggðaþróun og styðja við hinar dreifðari byggðir? Nei, öðru nær.

Voru lögin samin fyrir opnum tjöldum af mörgum umhverfisráðherrum með miklu samráði og mikilli sátt eins og aðstandendur halda svo mjög á lofti? Svarið er einnig afdráttarlaust nei. Þau voru samin af þeim stofnunum sem ætla sér alræðisvald yfir allt er lýtur að landnýtingu á Íslandi og fyrst og fremst með þeirra hagsmuni í huga.

Var tekið mið af fjölmörgum athugasemdum og rökfærslum sem andstæðar voru þeim sjónarmiðum sem fram komu í lögunum? Með fáum og léttvægum undantekningum er svarið nei.

Lög um náttúruvernd sem eru samin af blindri hóphugsun, munu ævinlega missa marks og grafa þannig undan málstað heiðalegrar náttúruverndar.

En takk fyrir skemmtunina. Vonandi kemur ekki til þess að íslensk stjórnvöld banni okkur að njóta listsköpunar ykkar á þeirri forsendu að hún sé bæði framandi og ágeng og því gríðarleg ógn við þjóðfræðilegan fjölbreytileika Íslensku þjóðarinnar. Eða „sæki víðtækar valdheimildir til upprætingar erlendra menningaráhrifa til Alþingis“ svo vitnað sé til orða fyrrverandi umhverfisráðherra í yfirfærðri merkingu.

„Oh by the way, which one's Pink“?




Skoðun

Sjá meira


×