Innlent

Elliði og Sóley tókust á í Minni skoðun: "Eins og offitusjúklingur að ráðleggja öðrum að drekka Diet Coke.“

Sérfræðingar Mikaels Torfasonar í Minni skoðun á Stöð 2 voru að þessu sinni þau Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík. Þau tókust á um Evrópumálin og frammistöðu ríkisstjórnarinnar.

Sjálfstæðismaðurinn Elliði Vignisson sagði strax í upphafi að hann hefði sjálfur viljað meiri umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar um Evrópusambandið og bætti því við síðar að það hefði ekki þurft að koma strax með þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum.

Sóley Tómasdóttir, sem er Vinstri græn, gagnrýndi framgöngu ráðherra Sjálfstæðisflokksins og sagði meðal annars að það væri alvarleg staða að ríkisstjórnin skuli trekk í trekk fara gegn því sem lofað var fyrir kosningar.

Elliði sagði að gagnrýni frá Vinstri grænum væri einkennileg og svo notast sé við hans orðalag:

„Eins og offitusjúklingur að ráðleggja öðrum að drekka diet kók.”

Sóley leiðrétti Elliða fljótt því rétt er að tala um „Vinstri græn” en ekki „Vinstri græna.”

„Ég biðst forláts á þessari einu villu sem ég hef farið með,” svaraði Elliði.

Þau voru bæði sammála að það væri einkennilegt að forsætisráðherra kannist nú ekki við bréf sem hann skrifaði undir og sent var út í aðdraganda alþingiskosninga 2009.

„Á maður að fá SMS frá Sigmundi Davíð til þess að taka hann alvarlega?” spurði Sóley en Elliði sagði að hann myndi ekki senda út nein bréf nema í því stæðu meiningar hans.

Þegar talið barst almennt að framistöðu framsóknarráðherra sagði Sóley að henni þættu þessir menn fara óvarlega með vald sitt. Elliði tók ekki undir það en þau voru bæði ósammála forsætisráðherra um að Evrópusambandið hefði sett ríkisstjórn Íslands afarkosti.

„Ég á erfitt með að búa til þá stöðu í huganum að við séum að renna út á tíma. Og hvað hefði þá gerst? Hefði ekki komið bréf frá Evrópusambandinu um að viðræðunum væri slitið? Og hefði þá ekki draumur Sigmundar ræst?” sagði Elliði.

Sjá má umræður þeirra Mikaels, Sóleyjar og Elliða í myndbandsklippunni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×