Viðskipti innlent

Við taka hömlur í breyttri mynd

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fáir telja að krónan hljóti á ný fullt frelsi, jafnvel þótt brotinn verði niður haftamúrinn sem um hana hefur verið reistur. Við taki regluverk Seðlabankans þar sem áfram verði settar skorður á hvaða krónur fái fararleyfi og hverjar ekki.
Fáir telja að krónan hljóti á ný fullt frelsi, jafnvel þótt brotinn verði niður haftamúrinn sem um hana hefur verið reistur. Við taki regluverk Seðlabankans þar sem áfram verði settar skorður á hvaða krónur fái fararleyfi og hverjar ekki. Fréttablaðið/Gunnar Karlsson
Fáir virðast hallast að því að krónan verði aftur frjáls gjaldmiðill þótt höftum verði aflétt.

Bæði seðlabankastjóri og sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa rætt um að þegar höftum sleppir þurfi að koma til „þjóðhagsvarúðarreglur“ eða „hraðahindranir“ á vegi útflæðis gjaldeyris úr landinu.

Án aðgerða er agnarsmár gjaldmiðill landsins jafnútsettur fyrir spákaupmennsku og sveiflum og hann var á meðan hann fékk að fljóta.

Meðal aðgerða sem lýst var í sérriti Seðlabankans, „Peningastefnan eftir höft“, í árslok 2010 eru takmarkanir á erlendar lántökur heimila og fyrirtækja sem ekki eru með tekjur í erlendri mynt, takmarkanir á afleiðusamninga og mögulegur skattur á fjármagnsflutninga.

Ekki töfralausn

Aðrar mögulegar aðgerðir sem nefndar eru til þess að draga úr hættunni á bólumyndun er að hlutir á borð við stimpilgjöld á lán, sem til þessa hefur fremur verið þrýst á að verði aflögð, verði notaðir til þess að hafa áhrif á eftirspurn.

Hugsa mætti sér kerfi þar sem hlutfall stimpilgjalda væri breytilegt yfir hagsveifluna. „Þannig væri ef til vill hægt að styrkja mótvægisáhrif skattsins,“ segir í ritinu.

Eins mætti hugsa sér sveiflujafnandi fasteignagjöld sem myndu hækka með kerfisbundnum hætti tengdum fasteignavísitölu.

Mögulegar aðgerðir sem Seðlabankinn kynni að grípa til eftir höft hafa hins vegar ekki verið útfærðar og í ritinu fremur settar fram sem hugmyndir.

Þá er einnig bent á að framkvæmd þjóðhagsvarúðarreglnanna, sem eru hluti af því sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri kallaði á sínum tíma „Verðbólgumarkmið plús“, gætu haft í för með sér vandkvæði og ekki væri um að ræða töfralausn sem tryggði að fjármálaáföll heyrðu sögunni til.

„Markaðsaðilar munu bregðast við með því að reyna að sveigja fram hjá reglunum með ýmsu móti. Einnig er mögulegt að hvatar brenglist og áhættusækni aukist á þeim mörkuðum sem falla ekki undir reglurnar,“ segir í riti Seðlabankans.

Eins er bent á að mjög erfitt geti verið að greina hvort eignabóla sé að myndast eða hvort um eðlilega verðhækkun sé að ræða.

„Ef um eðlilega verðhækkun er að ræða gæti beiting tækja sem taka á bólumyndun haft brenglandi áhrif á þjóðar­búskapinn.“

Átta ár að losa höftin

Í greiningu sérfræðingahóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem birt var í ágúst í fyrra, er líka talað um „hraðahindranir“ til þess að koma í veg fyrir flæði fjármagns úr landi.

Þar er bent á að þegar „snjóhengju“ sleppi þá sé hér innanlands uppsöfnuð þörf til fjárfestinga og áhættudreifingar utan landsteinanna sem geti orðið til þess að verulega halli á greiðslujöfnuð þjóðarinnar.

Ef eignasafn þjóðarinnar yrði nálægt því sem gerist hjá norrænum nágrannaþjóðum okkar þá biðu um ellefu hundruð milljarðar þess að flýja land (miðað við nýlegt gengi Bandaríkjadals og hlutfall af þjóðarframleiðslu 2011 sem AGS notar til útreikninga).

Í greiningunni er rætt um að 700 til tæplega 3.500 milljarðar króna gætu verið á leið úr landi. Ekki er þó horft til þess að erlend fjárfesting kynni að aukast hér eftir höft og því talið líklegt að „krónuflóttinn“ væri nær neðri mörkunum en þeim efri.

Sérfræðingar AGS telja hins vegar að vegna þessa þurfi að setja hömlur á útflæði fjármagns og þá sér í lagi á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóðanna svo næmi sjö til átta prósentum af landsframleiðslunni í átta ár á meðan dregið væri úr höftum.

Miðað við þessa greiningu virðast höft trauðla á förum í bráð.

„Sumir segja að þetta sé ekkert mál því atvinnulífið sé að laga sig að gjaldeyrishöftunum, en í því felst einmitt raunverulega vandamálið,“ segir Gísli.Vísir/Heiða
Forminu bara breytt á gjaldeyrishöftunum

„Ég hef ekki trú á því að við horfum fram á að gjaldeyrishöft hverfi í bráð,“ segir Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments og stjórnarmaður í Emerald Networks.

„Það er alveg ljóst að gjaldmiðillinn okkar er ekki nothæfur í alþjóðaviðskiptum og þar af leiðandi er hann ónothæfur fyrir allt atvinnulíf Íslands sem ekki horfir eingöngu til þess að kaupa og selja vörur innanlands. Um leið og maður þarf að kaupa aðföng erlendis eða selja útlendingum þá er íslenska krónan ekki gjaldmiðill sem hægt er að nota. Þetta er engin skoðun. Svona er þetta bara.“

Aðlögun að höftunum stóri vandinn

Gísli segist telja að hér verði gjaldeyrishöft í einhverri mynd þangað til tekinn verði upp annar gjaldmiðill og er vantrúaður á að hægt verði að búa til haftaregluverk sem ekki valdi skaða.

„Við vorum auðvitað í höftum í sextíu ár og í einhverjum skilningi virkaði það. Og ég trúi því að menn vinni af heilindum og með það að markmiði að breyta gjaldeyrishöftunum og gera þau þannig að fólk rekist minna á þau dagsdaglega.“

Hins vegar sé hætt við að íslensk fyrirtæki, sem falla undir alþjóðlega geirann, eins og hann sé nefndur í skýrslu McKinsey-ráðgjafarfyrirtækisins, yfirgefi krónuna í auknum mæli, líkt og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi fengið heimild til að gera fyrir um 30 árum.

„Við sjáum hvað gerist með þessi fyrirtæki í alþjóðlega geiranum. Eftir því sem þau stækka í útlöndum draga þau úr áhættu sinni á Íslandi. Og það er auðvitað mjög slæmt fyrir Ísland.“

Gísli bendir á að þau vaxtakjör sem íslenskum fyrirtækjum bjóðist séu mun verri en fyrirtækjanna sem þau keppa við.

„Við það geta þau ekki keppt og verða að flytja sig úr landi til að fá sambærileg vaxtakjör og aðrir,“ segir hann og bendir á að í dag fái íslensk fyrirtæki verri vaxtakjör en íslenska ríkið.

Íslenska ríkið sé svo aftur með verri vaxtakjör en sæmilega stórt fyrirtæki í Evrópu eða Bandaríkjunum. „Þetta er auðvitað ekki hægt.“

Um leið segist Gísli telja að bara sé skilgreiningaratriði hvað kallist varúðarreglur og hvað gjaldeyrishöft. „Menn eru bara að búa til flóknari og flóknari gjaldeyrishöft, sem eru kannski með fleiri undantekningum en að sama skapi eykst flækjustigið.“

Skaðsemi haftanna segir Gísli þegar augljósa.

„Sumir segja að þetta sé ekkert mál því atvinnulífið sé að laga sig að gjaldeyrishöftunum, en í því felst einmitt raunverulega vandamálið. Fyrir vikið er íslenskt atvinnulíf, fyrirtæki og heimili, að taka ákvarðanir sem eru óeðlilegar og óhagkvæmar til lengri tíma, en ganga upp í þessu skekkta umhverfi sem búið hefur verið til. Þetta er í rauninni versti hluti gjaldeyrishaftanna.“

Krónuálag skerðir samkeppnisstöðuna

Afnám gjaldeyrishaftanna segir Gísli fela meira í sér en að leysa bara snjóhengju, jöklabréf og kröfuhafa bankanna, þótt það megi oft skilja af opinberri orðræðu um höftin.

„Stóri vandinn er að lífeyrissjóðirnir þurfa að geta fjárfest í útlöndum. Núna hefur verið lokað fyrir það og það veldur offramboði af peningum á Íslandi,“ segir hann og veltir fyrir sér hvaða raunverulega verðmætasköpun eigi sér stað þegar íbúðir í miðbæ Reykjavíkur hækki um 40 prósent, líkt og gerst hafi.

„Það eina sem hefur gerst er að of mikið af peningum leitar að geymslustað og það keyrir upp verðið.“

Gísli bendir á að á meðan höft séu við lýði vaxi bara þörf lífeyrissjóðanna á að koma fé úr landi til fjárfestingar og áhættudreifingar. Þá verði líka hættara við því að almenningur hlaupi til með fjármuni úr landi vegna uppsafnaðs vantrausts á efnahagskerfinu þegar höftum léttir.

„Þrýstingurinn á að koma peningum úr landi er ekkert að hverfa og verður í eðli sínu alltaf til staðar á meðan við erum með einhver höft,“ segir hann, en áréttar um leið að hann gagnrýni ekkert þá vinnu sem eigi sér stað í Seðlabankanum.

„Menn ætla að breyta forminu á höftunum. En þessi höft munu ekkert fara á meðan við erum með krónu því það vill enginn kaupa hana.“ Þá sé bara hættuleg leið að ætla að hækka vextina til að ýta undir brask með krónuna, líkt og gerst hafi með jöklabréfin.

„Þetta er gríðarlega kvikt fjármagn og alveg óljóst hvernig það stuðlar að hagvexti á Íslandi. Þar fyrir utan held ég að þessi vaxtamunur þurfi að vera svo mikill að við munum í rauninni aldrei ráða við það til lengri tíma.“

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, hefur ekki trú á því að gjaldeyrishöft hverfi hér að fullu.Vísir/Valli
Vonast eftir skrefum í losun gjaldeyrishafta á þessu ári

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir liggja fyrir að við losun gjaldeyrishafta taki við þjóðhagsvarúðarreglur sem Seðlabankinn hafi birt.

„Seðlabankinn hefur birt varúðarreglur sem hann telur að sé æskilegt að verði til staðar við losun hafta. Þar er að einhverju leyti verið að reyna að koma í veg fyrir að sömu mistök og áttu sér stað fyrir hrun endurtaki sig. Varúðartækin eru meðal annars tengd útlánum, fjármögnun og eiginfjárgrunni fjármálastofnana. Meðal annars er lagt til að skorður verði settar á skuldsetningu í erlendri mynt, þá er einnig lagt til að tímabundnar hraðahindranir verði settar á lífeyrissjóði.“

Hömlur á lífeyrissjóðina segir Ásdís hins vegar þann þátt sem helst sé tilefni til að setja spurningarmerki við.

„Þegar horft er til þess að það eigi að afnema höftin, þannig að innlendir og erlendir aðilar megi fara úr landi með fjárfestingar sínar þá er verið að gefa sér að farsælasta lausnin sé að setja á sama tíma hömlur á fjárfestingar lífeyrissjóða.“

Hún bendir á að erlendar eignir lífeyrissjóðanna í heildareignasafni þeirra hafi farið minnkandi frá hruni og áhættudreifing þeirra minnki með hverju ári sem líður innan hafta.

„Vænt útflæði lífeyrissjóðanna vegna vilja þeirra til að fjárfesta á erlendum mörkuðum er ekki síður hluti af hinni svokölluðu snjóhengju sem við verðum að horfa til þegar við finnum leiðir til að opna hagkerfið á nýjan leik.”

Nýjum reglum, sem taki við af þeim fjármagnshöftum sem nú eru til staðar segir Ásdís ekki endilega þurfa að fylgja fælingaráhrif á erlenda fjárfesta.

„Ef horft er til þess hvað gerðist fyrir hrun þá er mjög eðlilegt að reynt sé að koma böndum á hluti sem Seðlabankinn gat ekki ráðið við. Með varúðarreglunum er meðal annars verið að fjölga stjórntækjum Seðlabankans og það þarf ekki endilega að virka fráhrindandi fyrir erlenda fjárfesta.“

Unnið sé að því að fjölga vopnum Seðlabankans þannig að hann hafi möguleika til að beita sér gegn óæskilegri þróun sem hann telji að ógni peningalegum og fjármálalegum stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

„Það held ég að séu til lengri tíma mun mikilvægari þættir fyrir erlenda fjárfesta, það er að sú sýn sé skýr, þannig að horfið sé frá þeim óstöðugleika sem einkennt hefur efnahagslífið.“

Ásdís segist telja að með varúðar­reglum Seðlabankans sé verið að reyna að taka á þáttum sem hefði þurft að ná betri stjórn á.

„En við megum heldur ekki ganga of langt og beita boðum og bönnum á alla hluti. Við þurfum að finna einhvern milliveg og líklega verður það mikil áskorun fyrir stjórnvöld að finna þennan milliveg. Hins vegar er alveg ljóst að fyrir hrun var ýmislegt í regluverkinu sem hefði mátt bæta og vegna þessa var ekki hægt að koma í veg fyrir margt af því sem hér átti sér stað.“

Þó að í varúðarreglunum sé lagt til að setja ætti hömlur á erlenda lántöku heimila og fyrirtækja sem eru ekki með tekjur í erlendri mynt, þá segist Ásdís ekki telja að neinar hömlur yrðu settar á þau fyrirtæki sem hasla vildu sér völl utan landsteinanna.

„Við viljum reyna halda okkar fyrirtækjum hér innanlands eins mikið og mögulegt er þrátt fyrir að þau kjósi einnig að stækka út fyrir landsteinana. Í þessu efni skipta höftin mjög miklu máli því við erum auðvitað að sjá fyrirtæki hverfa úr landi vegna þeirra.“

Ásdís segist vera vongóð um að á þessu ári verði stigin einhver skref í losun fjármagnshaftanna, þótt hún trúi því ekki að þau fari nokkurn tímann að öllu leyti.

„Og það sést á því hvaða reglur eru að taka hér við.“ Nauðsynlegt sé hins vegar fyrir atvinnulífið að hreyfing komist á afnám haftanna. „Það gerðist voða lítið á árinu 2013 og vonandi förum við að sjá einhverjar fréttir í þessum málum.“


Tengdar fréttir

Undanþágur kosta fyrirtæki og Seðlabanka 1,5 milljarða

Áætla má beinan kostnað vegna beiðna fyrirækja um undanþágur frá höftum. Frá og með 2009 hafa um 3.700 fyrirtæki sótt um undanþágu. Erfitt er að setja mælistiku á kostnað þjóðfélagsins við viðvarandi gjaldeyrishöft.

Þróunarfyrirtæki á hraðri leið úr landi

Lítil virkni er orðin í íslenskum félögum sem stofnuð voru um útrás á sviði virkjana og jarðvarma. Gjaldeyrishöft hrekja starfsemina úr landi því erlendir fjárfestar stíga ekki fæti inn fyrir höft. Fólk með sérhæfða þekkingu finnur samt vinnu víða.

Glötuð tækifæri mælast illa

Hér hefur verið byggð upp óþarflega mikil þolinmæði gagnvart gjaldeyrishöftum, segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir lönd aðlagast höftum merkilega vel. Önnur lögmál kunni þó að eiga við um þróuð ríki en þróunarlönd.

Í haftaumhverfi þurfa lífeyrissjóðir að gæta að sér

Eftir því sem gjaldeyrishöft eru lengur í gildi fækkar fjárfestingarkostum lífeyrissjóðanna. Áhætta eykst í rekstri þeirra og dregur úr ávöxtun. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir höftin til þess fallin að vega að samkeppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×