Umsvifin hafa aukist töluvert á einu ári, en í ársbyrjun í fyrra var frá því greint að sjóðirnir ættu um 29 prósent af heildarvirði skráðra hlutabréfa á listanum.
Líkast til er eignarhlutur sjóðanna eitthvað stærri því í samantektinni er einungis horft til skráningar á lista yfir 20 stærstu eigendur hvers félags, eins og hún var um síðustu mánaðamót.
Einhverjir sjóðir gætu átt smærri hlut sem ekki nær á listann, auk þess sem ekki er tekið tillit til eignar í hlutabréfasjóðum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, hvetur lífeyrissjóði til að endurskoða hvernig þeir koma að eigendaaðhaldi fyrirtækja.
Þess sé þörf í ljósi aukinna umsvifa þeirra innanlands vegna gjaldeyrishafta. Hætt sé við að halli á samkeppnisumhverfið ef eigendaaðhald er ónógt með fyrirtækjum.
Eins þurfi að hafa sérstaka gát á eignarhaldi félaga sem eiga í samkeppni, en yfirferð á lista yfir 20 stærstu leiðir í ljós að sex lífeyrissjóðir eiga bæði í TM og VÍS í Kauphöllinni.
Þar af er Lífeyrissjóður verslunarmanna meðal stærstu eigenda. Þá eiga tveir lífeyrissjóðir í öllum íslensku félögunum sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar.