McIlroy átti frábæran hring í gær og spilaði þá á 63 höggum eða níu undir pari vallarins. Hann gaf eftir í dag en skilaði sér í hús á 70 höggum eða tveimur undir pari.
Norður-Írinn byrjaði daginn á fá sinn fyrsta skolla á mótinu en hann bætti fyrir það með því að ná í þrjá fugla á fyrri níu.
Hann fékk svo fugl á tíundu en tapaði svo höggum á bæði 13. og 16. holu. Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka nýtti sér það og náði að koma sér upp að hlið McIlroy þegar hann náði sínum sjöunda fugli í dag á 17. holu.
En McIlroy endurheimti forystuna með frábærri spilamennsku á 18. holu sem skilaði honum fugli. Koepka er því einu höggi á eftir McIlroy, sem er á samtals ellefu höggum undir pari að loknum öðrum keppnisdegi.
Tiger Woods spilaði á 73 höggum í dag og er á samtals á þremur höggum undir pari. Hann er sem stendur tveimur höggum frá því að lenda röngu megin við niðurskurðarlínuna.
Sýnt er beint frá mótinu á Golfstöðinni.