Viðskipti innlent

Viðbótaráfangi í tengivirki Landsnets á Stuðlum tekinn í notkun

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Verið er að auka flutningsgetu og áreiðanleika svæðisflutningakerfisins á Austurlandi.
Verið er að auka flutningsgetu og áreiðanleika svæðisflutningakerfisins á Austurlandi. Vísir/Landsnet
Endurbótum og stækkun á tengivirki Landsnets á Stuðlum við Reyðarfjörð er nýlega lokið og tók bæjarstjóri Fjarðabyggðar virkið formlega í notkun við athöfn í dag.

Samhliða hefur Stuðlalína 1 verið spennuhækkuð. Framkvæmdirnar eru fyrsti áfanginn í aðgerðaráætlun Landsnets til að auka flutningsgetu og áreiðanleika svæðisflutningakerfisins á Austurlandi.


Í tilkynningu frá Landsneti segir að með þessu sé verið að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku hjá fiskimjölsverksmiðjum eystra sem hafa verið að skipta út olíukötlum fyrir rafskautakatla og geta nú nýtt innlenda og umhverfisvæna orku í stað olíu.

Voru fulltrúar frá þeim viðstaddir athöfnina í dag ásamt fleiri góðum gestum en það var Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sem tók tengivirkið á Stuðlum formlega í notkun.

Stækkun tengivirkisins á Stuðlum er sem fyrr segir fyrsti áfangi verksins í þeim áformum Landsnets að spennuhækka hringtengingunaHryggstekkur-Stuðlar-Eskifjörður-Eyvindará. Á Stuðlum er fyrir 66 kV útitengivirki og þar fer einnig fram afhending á raforku til Rarik, sem er dreifingaraðili rafmagns á svæðinu. Nú hefur verið bætt við 132 kV útitengivirki á sömu lóð ásamt tveimur 132/66 kV aflspennum með samanlagðri flutningsgetu um 65 MVA.

Stuðlalína 1 er 132 kV jarðstrengur sem liggur frá tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal að tengivirkinu á Stuðlum. Strengurinn var tekinn í notkun árið 2005 og rekinn á 66 kV spennu en hefur nú verið spennuhækkaður í 132 kV.

Með þessum aðgerðum eykst bæði flutningsgeta og áreiðanleiki svæðisflutningskerfisins á Austfjörðum en meginflutningskerfið á svæðinu mun áfram búa við takmarkanir, þar sem byggðalínan er fulllestuð.

Framkvæmdir vegna stækkunarinnar á Stuðlum hófust í júní 2013 og var samið við Launafl ehf. um byggingarframkvæmdir og Rafeyri ehf. um uppsetningu á rafbúnaði. Heildarkostnaður við verkefnið er um 400 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×