Skoðun

Vegna verkfalla lækna og skurðlækna

Elín Blöndal skrifar
Nú er liðið vel á annan mánuð síðan læknar og skurðlæknar hófu verkfallsaðgerðir sínar sem enn standa yfir. Hvernig stendur á því að ríkisvaldið hefur ekki komið með neitt raunverulegt útspil til að leysa þessa deilu?

Rætt er um að kaupkröfur lækna séu allt of háar og muni setja af stað launaskrið annarra stétta. Ljóst er þó að deilan verður ekki leyst nema komið verði að einhverju leyti til móts við þær kröfur. Eru stjórnvöld tilbúin að leggja til fjármagn svo það megi verða, eða ekki? Þögn ráðamanna varðandi þetta er í rauninni óskiljanleg. Hvað með kjarasamningsumhverfi lækna, vinnutíma, vinnuskilyrði og stjórnun? Geta úrbætur á þessum atriðum eða öðrum liðkað fyrir úrlausn deilunnar til viðbótar við launahækkanir? Við skulum ekki gleyma því að ríkisvaldið gegnir hér tvíþættu hlutverki, annars vegar sem samningsaðili lækna og hins vegar sem sá aðili sem á að tryggja landsmönnum mannsæmandi heilbrigðisþjónustu. Af þeim fréttum sem almenningur hefur fengið af læknadeilunni er ekki að sjá að raunhæfar lausnir hafi verið lagðar fram af hálfu ríkisins sem samningsaðila.

Grundvallarábyrgð

Þegar sjómenn fara í verkfall hefur það þótt mjög alvarlegt mál og ríkisvaldið almennt verið tilbúið að grípa til lagasetningar. Þetta hefur verið gert með vísan til almannahagsmuna þrátt fyrir að fyrir liggi að alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Evrópuráðið samþykki ekki lagasetningu sem stöðvar verkföll við slíkar aðstæður. Inngrip löggjafans í læknaverkföllin (með lagasetningu sem myndi stöðva þau) eru ekki raunhæf leið við þær aðstæður sem nú eru uppi, þrátt fyrir að slíkt væri mun réttlætanlegra heldur en þegar aðilar á borð við sjómenn og skipverja á Herjólfi eiga í hlut. Hér verða aðrar, kannski ekki eins einfaldar, lausnir að koma til.

Ég er meðal þeirra sem lýsa yfir fullum stuðningi við lækna – en eins og fram hefur komið af þeirra hálfu er það grafalvarlegt mál að læknastéttin skuli nú í fyrsta skipti hafa nýtt sér verkfallsréttinn. Við viljum öll geta fengið þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem á þarf að halda, ekki síst þegar mikið liggur við. Sú þjónusta hlýtur alltaf að vera ríkisrekin að grunni til. Bæði stjórnvöld og forsvarsmenn lækna bera ábyrgð á því að leggja fram raunhæfar tillögur til lausnar kjaradeilunni. Stjórnvöld ein bera hins vegar grundvallarábyrgð á því að heilbrigðisþjónusta í landinu sé með eðlilegum hætti. Ætlar ríkisstjórnin samt bara að sitja hjá og láta verkföll lækna ganga áfram aðgerðalaust?




Skoðun

Sjá meira


×