Skoðun

Eins og hundur á roði

Ólafur Valsson skrifar
Alþingi hefur nú tekið til umfjöllunar flutning á raforku og flutningskerfi sérstaklega með tilliti til notkunar jarðstrengja. Rétt er því að halda til haga hversu hratt hefur molnað undan málflutningi Landsnets í umræðunni um flutningskerfi raforku á undanförnum mánuðum.

Það verður að horfa á staðhæfingar og síendurteknar upphrópanir forsvarsmanna Landsnets, einkafyrirtækis með einokun á flutningi raforku á Íslandi, í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir hafa hver um annan orðið uppvísir að því að stórýkja mun á kostnaði við lagningu raflína í jörð eða í lofti. Staðfest hefur verið að munurinn er ekki fimm- til nífaldur eins og talsmenn Landsnets héldu fram síðast í janúar 2013 heldur er hann óverulegur.

Þetta hefur ítrekað komið fram og síðast nú í lok síðasta árs þegar kynnt var athugun verkfræðinga sem að beiðni Landsnets skoðuðu mun á kostnaði við jarðstrengi og loftlínur. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að beinn kostnaðarmunur væri svona álíka og munur á kostnaði við að reisa 220 kV loftlínu samanborið við að reisa 132 kV línu sem bæði Landsnet og Orkustofnun hafa talið óverulegan. Forsvarsmenn Landsnets geta því varla haldið þessum málflutningi til streitu. Það stendur enda heima að strax er farið að halda á lofti þeirri stefnu fyrirtækisins að byggja fáar og öflugar línur af því að stjórn Landsnets telji það svo gott fyrir umhverfið og stefnu fyrirtækisins varðandi notkun jarðstrengja sem hefur verið óbreytt frá stofnun þess.

Öll nema Landsnet

Sú mantra er einnig tuggin ítrekað að horfa þurfi langt fram í tímann og gera ráð fyrir alls kyns hugsanlegri og óhugsanlegri stóriðju á víð og dreif um landið. Mikil er spádómsgáfa forsvarsmanna fyrirtækisins sem telja sig geta sagt til um hvernig umhorfs verður á Íslandi, jafnvel í heiminum öllum eftir hundrað ár.

Í umræðu um jarðstrengi er rétt að hafa í huga að jarðstrengjanefndin sem svo hefur verið kölluð hafnaði alfarið stefnu Landsnets í jarðstrengjamálum svo sem fram kemur í gögnum hennar, en forstjórinn gerði stefnu Landsnets að sinni tillögu að lokaniðurstöðu nefndarinnar. Ekkert af tillögum hans rataði í sameiginlega niðurstöðu nefndarinnar.

Til eru alþjóðleg samtök sem fjalla um flutningskerfi raforku og jarðkapla. Þessi samtök, Jicable, halda reglulega ráðstefnur þar sem farið er yfir þróun og áherslur í flutningskerfum og þróun í jarðstrengjum. Þessar ráðstefnur sækja öll helstu flutningsfyrirtæki í heiminum, þar á meðal hið norska, danska og önnur evrópsk – nema Landsnet.

Margt merkilegt kemur samkvæmt skýrslum fram á þessum ráðstefnum og má nefna umræðu um gagnsemi þess að að rýna í óendanleikann og þörfina á nýrri nálgun í hugsun við hönnun og útfærslu flutingnsneta, þar sem spurningar eru settar við hvort sé endilega hagstæðast að hafa fáar og stórar línur og hitt að telja sig geta spáð fyrir um umhverfið og afstöðu almennings eftir 70 ár eða meir. Þessar spurningar hafa greinilega ekki náð eyrum talsmanna Landsnets.

Þeim er kannski nokkur vorkunn. Erfitt er að fóta sig þegar veröldin hrynur og hvert haldreipið eftir annað hefur brostið. Því er hangið á afdankaðri hugmyndafræði síðustu aldar – eins og hundur á roði.




Skoðun

Sjá meira


×