Hank Haney þjálfaði Woods um nokkurra ára skeið en samstarfi þeirra lauk síðla árs 2009. „Að mínu mati þá er hann of mikið í ræktinni. Það er ekki spurning að kylfingar þurfa að vera í formi til að komast hjá meiðslum en að mínu mati þá hefur hann gengið of langt,“ sagði Haney í útvarpsþætti í gær.
„Það hafa margir bent á það að hann sé enn massaðri í ár en áður. Þegar hann var grennri og yngri þá sló hann hraðar. Styrkur hjálpar þér kannski í karganum en ég tel hann ganga of langt. Tiger elskar að lyfta lóðum.“
Hvað sem því líður þá verður Woods næst með í Dubai Desert Classic mótinu sem hefst á fimmtudag. Mótið verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni.