Innlent

Ráðuneytið var ósammála túlkun Fæðingarorlofssjóðs

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Túlkun Fæðingarorlofssjóðs á heimildum til frádráttar frá greiðslum til fólks í fæðingarorlofi vegna annarra tekna þess hefur ekki verið í samræmi við túlkun ráðuneytisins á lögum um sjóðinn.
Túlkun Fæðingarorlofssjóðs á heimildum til frádráttar frá greiðslum til fólks í fæðingarorlofi vegna annarra tekna þess hefur ekki verið í samræmi við túlkun ráðuneytisins á lögum um sjóðinn. Nordicphotos/Getty Images
Vilji löggjafarvaldsins í lögum um fæðingar- og foreldraorlof stóð til þess að foreldrar gætu nýtt sér ákveðið svigrúm við tekjuöflun til að koma á móti mögulegu tekjutapi við töku slíks orlofs.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir það hafa verið afstöðu ráðuneytisins að túlkun Fæðingarorlofssjóðs á lögunum hafi ekki verið rétt. „Við höfum verið sammála umboðsmanni Alþingis í þessum málum,“ segir hún.

Nokkur álit umboðsmanns Alþingis, síðast núna í lok árs, hafa gert sjóðinn afturreka með innheimtu á því sem sjóðurinn hefur viljað meina að hafi verið ofgreiddar bætur í fæðingarorlofi. Eygló segir hendur ráðuneytisins hins vegar hafa verið bundnar fyrst úrskurðarnefnd um fæðingar- og foreldraorlofsmál hafi tekið undir með túlkun sjóðsins.

Eygló Harðardóttir
„En nú eru þessi álit umboðsmanns komin frá og mikilvægast að sjóðurinn leiðrétti í samræmi við þá túlkun laganna sem þar kemur fram,“ segir hún. 

Í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum þess næsta er gert ráð fyrir 285 milljónum króna til að endurgreiða fólki upphæðir sem sjóðurinn hafði áður krafið það um endurgreiðslu á vegna meintrar oftöku fæðingarorlofsbóta. Frá 2007 hefur sjóðurinn krafið 2.542 einstaklinga um alls tæpar 329 milljónir króna, en hluti málanna kann að vera fyrndur.

Eygló segir alveg ljóst að stofnanir eigi að fylgja lögum sem um þær eru settar. Í lögum um fæðingarorlof hafi verið gert ráð fyrir svigrúmi handa fólki til tekjuöflunar til að koma á móti tekjutapi við töku orlofsins. „Og það er mjög mikilvægt að þetta svigrúm sé til staðar. 

Ég hef þá trú að meginþorri þeirra foreldra sem taka fæðingarorlof geri það til þess að geta verið með börnum sínum og myndað nauðsynleg tengsl, bæði mæður og feður.“ 

Skilaboð stjórnvalda þurfi fyrst og fremst að vera í þá átt að hvetja foreldra til töku fæðingarorlofs. 

Eygló segist hafa ákveðnar áhyggjur af því að tölur Hagstofunnar sýni að dregið hafi úr tíðni fæðinga hér á landi og við því þurfi að bregðast. Nýskipaður starfshópur um fæðingarorlof skoði lögin í heild og geri tillögur um úrbætur þar sem þeirra teljist þörf. 

„En núna er fyrst og fremst aðkallandi að leiðrétta það sem aflaga hefur farið í framkvæmd á lögunum,“ segir hún.

Birkir Jón Jónsson
Starfshópur skoðar stóru myndina

Á þriðjudag var greint frá skipan starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra sem móta á tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum.

Huga á sérstaklega að því hvernig best megi ná markmiðum um að tryggja barni samvistir við báða foreldra samhliða því að foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Í skipunarbréfi segir að meðal annars þurfi að líta til þess hvernig endurheimta megi þann megintilgang fæðingarorlofskerfisins að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar leggi niður störf í fæðingarorlofi, ásamt því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, er formaður starfshópsins, en auk hans eiga í hópnum sæti fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Bandalags háskólamanna, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×