Alvöru miðbær með alls kyns starfsemi, búðum, kaffihúsum, jafnvel veitingahúsi verður til með góðu skipulagi ekki fleiri bílastæðum! Hvert fer fólk eftir heimsókn í Hönnunarsafnið? Út í Víði að kaupa sér kók?
Hvað með unga fólkið?
Samkvæmt nýjustu tölum um aldursdreifingu í bænum virðist staðan vera sú að fólk á aldrinum 20-40 ára hefur ekki áhuga eða getu til að búa í Garðabæ. Hluti af þessu vandamáli er væntanlega annars vegar vegna skorts á litlum og millistórum íbúðum og þjónustugjöldum á barnafjölskyldum en hinsvegar vegna þess að bærinn er einfaldlega ekki nógu skemmtilegur. Við verðum að hlúa betur að þessum hópi fólks vegna þess að í því býr mikill mannauður. Það er mikilvægt fyrir samfélag að hafa breiða flóru fólks og það á að vera forgangsatriði að halda unga fólkinu okkar í bænum en ekki hrekja það í burtu.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 12 vínbúðir og að minnsta kosti ein í hverju sveitarfélagi nema í Garðabæ. Finnst fólki það eðlilegt að í svona stóru sveitarfélagi þurfi íbúar að leita annað til að versla sér bjór með matnum?
Að okkar mati er vínbúðaleysið í Garðabæ birtingarmynd af stærra vandamáli. Í Garðabæ eru ekki kaffihús né barir svo vilji fólk gera sér glaðan dag og hittast annarstaðar en heima hjá sér verður það að leita í annað sveitarfélag, nú eða fara saman í IKEA. Við viljum að í Garðabæ sé alvöru miðbær þar sem fólk hittist á tónleikum eða listsýningum og endi kvöldið á kósý kaffihúsi.
Afhverju er ekki unnið markvisst að því að fá verslunar-, kaffihúsa- og kráareigendur til að hefja rekstur í bænum fyrir bæjarbúa að njóta?
Við viljum búa í bæ þar sem þeir sem alast þar upp vilji og geti búið þar áfram þegar þeir flytja að heiman en setjist ekki að í öðrum sveitarfélögum og snúi aftur á gamalsaldri. Við viljum líka búa í bæ þar sem við getum kíkt með vinum okkar í kaffi eftir vinnu og kíkt út á lífið um helgar. Gerum Garðabæ að skemmtilegri bæ fyrir fólk á öllum aldri því á endanum snýst þetta allt saman um lífsgæði fyrir venjulegt fólk og fjölskyldur.