Viðskipti innlent

Viðskipti með hluti í TM hefjast í Kauphöllinni í dag

Kauphöllin tilkynnir að í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) á Aðalmarkaði hennar.

Í tilkynningunni segir að TM tilheyrir fjármálageiranum og flokkast sem lítið félag (e. small cap). TM er þriðja félagið sem skráð er í Kauphöllinni.

TM er íslenskt vátryggingafélag sem veitir heildarlausnir í tryggingum til yfir 50.000 viðskiptavina og fyrirtækja. TM hefur starfsleyfi á evrópska efnahagssvæðinu og í Færeyjum og tryggir erlendar og innlendar áhættur. Fjárfestingar eru sem afleiðing af tryggingastarfseminni, mikilvægur hluti af viðfangsefnum TM. Markmið TM er að veita viðskiptavinum sínum yfirburðaþjónustu og skila hluthöfum góðum arði.

“Við bjóðum alla nýju hluthafana hjartanlega velkomna í félagið - við hlökkum  til að takast á við framtíðina með þeim. TM hefur farið í gegnum miklar breytingar síðan 2008 þegar félagið var síðast í Kauphöllinni.  Afkoma okkar af vátryggingastarfsemi var á síðasta ári sú besta á íslenska markaðnum. Markmið okkar er að leita alltaf nýrra leiða þegar kemur að áhættumati, verðlagningu og þjónustugæðum, hluthöfum okkar og viðskiptavinum til hagsbóta,” segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í tilkynningunni.

“Það er með ánægju sem við bjóðum TM velkomið í Kauphöllina. Áhugi fjárfesta á TM sýnir svo ekki verður um villst að félagið á heima á markaðnum og undirstrikar þörfina fyrir fleiri fjárfestingarkosti.” segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

“Ákvörðun TM að skrá sig á hlutabréfamarkað hefur fært þeim um það bil 7000 nýja hluthafa. Við hlökkum til að styðja við félagið á nýrri vegferð þess sem skráð fyrirtæki. “






Fleiri fréttir

Sjá meira


×