Skoðun

Flugvöllurinn sem hvarf

Karl Hinrik Jósafatsson skrifar
Árum saman hefur staðsetning Reykjavíkurflugvallar verið mikið hitamál og ýmsar ólíkar skoðanir komið fram um framtíð hans. Þessa stundina virðast flestir horfa eingöngu á tvo möguleika, þ.e. að annaðhvort verði flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni eða að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur. Að mínu mati eru margir ókostir við báðar þessar hugmyndir og því langar mig að benda á aðra lausn sem gæti komið okkur út úr þeirri sjálfheldu sem málið er nú fast í.

Það væri mikill kostur ef hægt væri að finna lausn á flugvallarmálinu sem allir gætu sætt sig við. Hugmyndin sem ég vil leggja til hefur ekki verið skoðuð áður, a.m.k. ekki í þeirri mynd sem birtist hér. Áður fyrr hefur sá möguleiki verið skoðaður að setja nýjan flugvöll á uppfyllingu úti í Skerjafirði en mörgum finnst sú lausn of dýr.

Útgáfan sem ég vil leggja til er mun ódýrari, hugsanlega helmingi ódýrari. Hún felst í því að sleppa uppfyllingunni að mestu en reisa í staðinn stífluveggi sem ramma flugbrautirnar inn og halda sjónum úti. Til þess að búa til þurrt svæði í Skerjafirðinum fyrir tvær flugbrautir þarf aðeins að reisa um sjö kílómetra af stífluveggjum. Flugbrautirnar sjálfar yrðu tveimur til þremur metrum undir sjávarmáli. Einhverjir gætu haldið að það sé stórhættulegt að fara þessa leið, vegna hættu á að sjórinn myndi flæða yfir flugvöllinn, en til að svara þeim áhyggjum nægir að benda á að ríflega helmingur af yfirborði Hollands er undir sjávarmáli. Schiphol-flugvöllur er t.d. þremur metrum undir sjávarmáli en hann er í fjórða sæti yfir umferðarmestu flugvelli Evrópu. Það ætti ekki að vera mikið mál að dæla út sjónum af þessu litla svæði sem flugbrautirnar myndu taka í Skerjafirðinum og halda þeim þurrum. Flugstöðin yrði aftur á móti á uppfyllingu, enda tekur hún mun minna pláss en flugbrautirnar.

Stífluveggirnir yrðu hafðir nógu háir til þess að öldugangur í verstu veðrum næði ekki yfir stífluna. Það hefði auk þess í för með sér að flugvöllurinn sæist varla frá íbúðarsvæðum í nágrenninu. Hugsanlega væri hægt að sjá í stél stærstu flugvéla, allt annað væri í hvarfi á bak við stíflurnar. Veggirnir myndu einnig draga mikið úr öllum hávaða frá flugvélunum.

Þegar sú hugmynd kom upphaflega fram að flytja flugvöllinn út í Skerjafjörðinn lýstu einhverjir yfir áhyggjum vegna sjávarseltu og töldu að hún hefði slæm áhrif á flugvélarnar. Til að svara því vil ég benda á að margir flugvellir eru við sjó eða liggja að hluta til úti í sjó á uppfyllingu. Staðir þar sem þetta á við eru t.d. San Francisco, Tókíó, San Diego, New York, Boston, Kansai og Madeira. Ekki hef ég heyrt að sjávarseltan sé stórt vandamál við þessa flugvelli. Auk þess eru flugvélarnar ekki nema lítinn hluta af tímanum á flugvellinum, mestallan tímann eru þær á flugi milli áfangastaða.

Kostirnir við að setja Reykjavíkurflugvöll út í Skerjafjörðinn eru margir:

 • Flestir landsmenn og höfuðborgarbúar gætu sætt sig við þessa lausn.

 • Umhverfisraskið er lítið, aðeins brot af Skerjafirðinum færi undir flugbrautir.

 • Flugvöllurinn sæist varla frá nágrenninu og hávaðinn yrði lítill.

 • Sjúkraflug yrði áfram í Reykjavík.

 • Uppbygging í Vatnsmýrinni getur hafist.

 • Vegtenging yfir á Álftanes kæmi í framhaldi af stífluveggnum sem yrði innst í Skerjafirðinum, hvort sem það yrði gert með brú eða örstuttum göngum. Þetta er mikið öryggisatriði fyrir íbúa í vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarness. Auk þess myndi þessi vegtenging stytta leiðina að flugvellinum fyrir alla þá sem búa vestan við Reykjavík.

 • Hægt væri að stækka flugvöllinn í Skerjafirði síðar meir, ef sátt næðist um það, þannig að hann nýttist sem millilandaflugvöllur.

Frá því að umræðan um framtíð Reykjavíkurflugvallar hófst hef ég verið á þeirri skoðun að hann eigi að fara úr Vatnsmýrinni en alls ekki fara af höfuðborgarsvæðinu. Þessi hugmynd er lögð fram til þess að benda á að til eru fleiri leiðir en þær sem helst er rætt um þessa dagana.




Skoðun

Sjá meira


×