Skoðun

Kæru Reykvíkingar og aðrir landsmenn

Eva Einarsdóttir skrifar
Nú styttist í 168. dag ársins. Fyrir marga hefur það svo sem ekki mikla þýðingu en þann dag þekkjum við betur sem 17. júní, þjóðhátíðardag Íslendinga, daginn sem við fögnum sjálfstæði okkar, og á næsta ári fögnum við hvorki meira né minna en 70 ára afmæli lýðveldisins.

17. júní er mörgum kær, þá sérstaklega börnum og ungmennum. Hátíðardagskrá í tilefni dagsins hér í Reykjavík er einmitt skipulögð með þeim hætti að börn, ungmenni og fjölskyldan öll geti skemmt sér vel og átt góðan dag saman. Dagskráin í ár er með hefðbundnu sniði, enda sýndi það sig þegar gerð var könnun meðal Reykjavíkinga um hvernig þeir vildu haga hátíðarhöldunum að flestir vildu litlar breytingar.

Þó þykir mér mikilvægt að vera með puttann á púlsinum og vera opin fyrir því að bjóða upp á eitthvað nýtt og skapandi.

Í ár mun Reykjavíkurborg í samstarfi við Hörpu tónlistarhús bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og húsið verður opið öllum. Þetta er skemmtileg viðbót við hátíðarhöldin og stækkar það svæði þar sem dagskrá fer fram, sem teygir sig allt frá hafnarbakkanum yfir að Hljómskálagarðinum. Eins kemur Bókmenntaborg UNESCO að dagskránni þar sem leikkonur munu flytja úrval skemmtilegra ljóða hér og þar í Kvosinni, í Mæðragarði, í Bríetarbrekku, Hljómskálagarði og við styttu Tómasar Guðmundssonar við Tjörnina.

Metnaðarfull tónlistardagskrá verður á Arnarhóli og í ár verður henni útvarpað beint á Rás 2. Þeim sem leiðist mannmergðin og klístraðar hendur geta því hlustað við útvarpstækið heima, sem og landsmenn allir um allt land.

Skrúðgöngur, fánar, morgunathöfnin við Austurvöll, upphlutur, fjallkonan, kransinn á leiði Jóns Sigurðssonar, skátar, spariföt, kandífloss, Brúðubíllinn og tónleikar á Arnarhóli eru meðal þess sem boðið verður upp á í miðborg Reykjavíkur á þjóðhátíðardaginn. Bætum við gleði, náungakærleika og þakklæti og þá erum við komin með hinn fullkomna dag.

Gleðilega þjóðhátíð – og góða skemmtun!




Skoðun

Sjá meira


×