Innlent

Vöktunar á lífríkinu sárt saknað

Ef það er eitthvað eitt sem endurtekur sig í gegnum gögn varðandi þverun fjarða þá er það sú óvissa sem er um raunveruleg áhrif slíkrar framkvæmdar á vistkerfið. fréttablaðið/valli
Ef það er eitthvað eitt sem endurtekur sig í gegnum gögn varðandi þverun fjarða þá er það sú óvissa sem er um raunveruleg áhrif slíkrar framkvæmdar á vistkerfið. fréttablaðið/valli
Þegar ráðist var í framkvæmdir við Snæfellsnesveg um Kolgrafafjörð var lítið vitað um lífríkið í firðinum. Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, mæltist til þess á sínum tíma að lögð yrði fram vöktunaráætlun til að fylgjast með því hvort áhrifin af framkvæmdinni, þverun fjarðarins, yrðu raunverulega þau sem gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Það var ekki gert, og stóð aldrei til. Sérfræðingur gagnrýnir hart að framkvæmdum eins og þverun Kolgrafafjarðar skuli ekki vera fylgt eftir með vöktun.

30.000 tonn dauð

Við tilraunir til að skýra síldardauðann í Kolgrafafirði í desember hefur verið nefnt að þverun fjarðarins árið 2004 geti verið hluti skýringarinnar. Hafrannsóknastofnun hefur í tvígang farið í sérstakar vettvangsferðir og er niðurstöðu þeirrar síðari beðið. Bráðabirgðaniðurstöður stofnunarinnar í desember voru þær að mikið magn síldar drapst þar á stuttum tíma; á botni fjarðarins liggja allt að þrjátíu þúsund tonn af síld sem er tekin að rotna. Súrefnismettun í firðinum mældist þá mjög lág, lægri en áður hefur mælst í sjó við landið. Hún er talin meginorsök síldardauðans.

Brýrnar full stuttar?

Héðinn Valdimarsson, haffræðingur á sjó- og vistfræðisviði Hafró, segist ekkert þora að fullyrða um hugsanlegt samhengi á milli síldardauðans og þverunar fjarðarins. Hann bendir á að sögur megi finna um síldardauða í Kolgrafafirði fyrr á árum, löngu áður en þverun fjarðarins kom til álita. „Hitt er annað mál að maður veit ekki fyrir víst hverjir staðhættir væru þarna ef þverunin hefði ekki komið til, og þá í samhengi við það mikla magn af síld sem þar safnaðist fyrir. Það er mikil hreyfing í gegnum þennan ál sem brúin liggur yfir en hvort það dugir til, er annað mál.“

Héðinn segir það gilda spurningu hvort ítarleg vöktun á lífríki, og fleiri þáttum, eigi ekki að fylgja framkvæmdum eins og þverun Kolgrafafjarðar, og þá óháð því hvort síld sé að finna eða ekki. „Maður hefur spáð í það að þessar brýr, á þessum þverunum hér á landi, séu full stuttar,“ segir Héðinn.

Héðinn bætir við að það sé þekkt að síld gangi mjög á súrefni þar sem hún safnast saman, óháð því hvort fjörðurinn sé opinn eða lokaður. Í Grundarfirði hafi mælingar Hafrannsóknastofnunar sýnt nákvæmlega þetta, og segir Héðinn það með ólíkindum hvað síldin liggur þétt. „Jafnvel svo þétt að síldin kom sér ekki undan og blóðslóð var á eftir bátum, eins og var tilfellið í Grundarfirði.“

Mat á umhverfisáhrifum

Í mati á umhverfisáhrifum vegna Snæfellsnesvegar um Kolgrafafjörð, sem unnið var af Vegagerðinni, kemur fram að vatnsskipti fjarðarins voru eitt af grundvallaratriðunum við hönnun vegarins. Í matsskýrslu kemur fram að búast megi við einhverri breytingu á vatnsbúskap og sé sú breyting algerlega háð brúarlengd. Ákveðið hafi verið að vatnsmagnið sem falla þurfi inn og út úr firðinum til að breytingar á sjávarföllum verði sem minnstar hafi ráðandi áhrif á lengd brúarinnar, og niðurstöður útreikninga úr straumlíkaninu hafi verið notaðar við ákvörðun brúarlengdar. Brúin varð 230 metra löng með 150 metra löngu virku vatnsopi. Með svo langri brú töldu sérfræðingar á vegum Vegagerðarinnar það tryggt að sjávarföll yrðu nær óbreytt og áhrif brúarinnar á lífríki fjarðarins óveruleg, segir í matsskýrslunni.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um umhverfismatið kemur fram sú skoðun að umfjöllun um áhrif straumbreytinga í Kolgrafafirði hefði þurft að vera nákvæmari. Eins að stofnunin leggi til að lögð verði fram vöktunaráætlun vegna framkvæmdanna þar sem fylgst verði með hvaða áhrif þverun Kolgrafafjarðar hafi raunverulega í för með sér, og hvort það standist sem gert sé ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Þannig sé brýnt að kanna hvort brúin sé í raun nógu löng til að tryggja full vatnsskipti og nauðsynlegt að fylgjast með straumhraða sjávar, lífríki í sjó, fuglalífi og gróðurbreytingum.

Í svörum Vegagerðarinnar kemur fram að sjávarföll verði mæld að loknum framkvæmdum í Kolgrafafirði til að kanna hvort forsendan um að brúin hafi mjög lítil áhrif á sjávarhæð í innanverðum firðinum standist. Aldrei stóð hins vegar til að Vegagerðin myndi vakta breytingar á lífríki í sjó eða breytingar á fuglalífi, nema í ljós kæmi að mannvirkið hefði haft meiri áhrif á vatnsskipti í firðinum en reiknað hafði verið með. Í úrskurði Skipulagsstofnunar um umhverfismatið vegna framkvæmdarinnar segir að stofnunin fallist á fyrirhugaða lagningu vegarins „með því skilyrði að tryggt verði að því sem næst óbreytt vatnsskipti verði í Kolgrafafirði að loknum framkvæmdum.“

21 mínúta

Vegagerðin fékk verkfræðistofuna Mannvit til þess að gera mælingar á sjávarföllum innan og utan þverunar í Kolgrafafirði árið 2011, til þess að kanna áhrif vegamannvirkja á sjávarföll innan þverunar í firðinum; áhrif þeirra á tíma og sjávarhæð flóðs og fjöru. Niðurstaðan varð sú að munur á sjávarhæð á fjöru innan og utan þverunar var níu sentímetrar og seinkun á fjöru var um 21 mínúta.

Skilgreining á fullum vatnsskiptum er sú að ekki verði breytingar á sjávarföllum við þverun. Miðað við skilgreininguna er því ekki um að ræða full vatnsskipti innan þverana í Kolgrafafirði, eins og Vegagerðin stefndi að. Þetta kemur fram í rannsókn Björns H. Barkarsonar, umhverfisfræðings og ráðgjafa hjá VSÓ ráðgjöf, sem hefur rannsakað þverun fjarða á Íslandi sérstaklega. Hins vegar telur Vegagerðin að niðurstaða rannsóknarinnar hafi staðfest að þverunin hafi haft „óveruleg áhrif á sjávarföll,“ eins og segir í frummatsskýrslu vegna Vestfjarðavegar.

Vöktun æskileg

Björn vill ekkert gefa sér um hvort þverunin hafi haft nokkur áhrif á vistkerfið í firðinum eða tengist síldardauðanum að einhverju leyti. Hins vegar segir Björn mestu skipta að almennt eigi menn það til að einfalda hlutina í kringum þveranir hér á landi. „Mér finnst að menn eigi að setja spurningarmerki við þetta. Alla vega að þegar farið er í svona framkvæmd sé eitthvað gert til að fylgjast með því hvort breyting verður. En það var einfaldlega ekki gert.“ Hér vísar Björn til vöktunar til lengri tíma litið; nokkurra ára.

Björn segir helstu rökin fyrir því að vakta framkvæmdasvæði ekki síst þau að staðfesta að vel hafi tekist til, eða vita þá af því ef eitthvað hefur misfarist. Það sé ekki síst mikilvægt til að undirbúa önnur verkefni, sem eru þegar á teikniborðinu.

Niðurstaða rannsóknar Björns, sem ber nafnið Þverun fjarða – áhrif á náttúru, landslag og landnotkun og var styrkt af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar, er í stuttu máli þessi: Áætlanir um þverun fjarða byggja undantekningalítið á rökum um minni tíðni umferðarslysa, skemmri ferðatíma og styttingu vegalengda. Auknar kröfur um umferðaröryggi hafa aukið umfang vegamannvirkja og erfitt getur reynst að nota eldri veglínur við endurbætur á vegi. Umhverfisþættir sem helst geta orðið fyrir áhrifum af þverun fjarða eru eðlisþættir sjávar (sjávarföll, straumar, selta og alda), lífríki fjöru og sjávar, jarðmyndanir og landslag.

„Breytilegt er eftir aðstæðum á hverjum stað hvort umhverfisáhrif af þverun fjarða eða uppbyggingu vegar fyrir fjörð eru meiri. Við undirbúning þverunarverkefna hefur takmörkuð áhersla verið lögð á rannsóknir á samspili eðlisþátta sjávar og lífríkis, þrátt fyrir að talsverð óvissa ríki um áhrif þverana á þetta samspil. Óvissa í spám um umhverfisáhrif ætti að ýta undir það að sett sé af stað vöktun í tengslum við leyfisveitingar og að sannreynt sé hvernig til hefur tekist við mat á umhverfisáhrifum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×