Innlent

Gagnrýnir Orkuveituna fyrir brennisteinsmengun nærri Waldorfskólanum

Valur Grettisson skrifar
Hellisheiðavirkjun. Brennisteinsmengunin hefur farið yfir lögleg mörk nærri Waldorfskólanum, en þar er einnig sumarhúsabyggð.
Hellisheiðavirkjun. Brennisteinsmengunin hefur farið yfir lögleg mörk nærri Waldorfskólanum, en þar er einnig sumarhúsabyggð.
„Þetta varðar almannahagsmuni,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðiflokksins í Kópavogi.

Hann bókaði sérstaklega á fundi framkvæmdaráðs í dag að mengun  í Lækjarbotnum frá Hellisheiðarvirkjun Orkuveitunnar, fari yfir viðmiðunarmörk, „sem er óásættanlegt,“ eins og segir í bókuninni sem Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúui Framsóknarflokksins lagði fram með Gunnari í dag.

Bókunin kemur í kjölfar framlagningu minnisblaðs deildarstjóra eignadeildar Kópavogsbæjar þar sem gerð er grein fyrir nauðsynlegum endurbótum skólahúsnæðis Waldorfskólans í Lækjarbotnum, sem þurfa að koma til framkvæmda á þessu ári og næstu árum.

Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, gagnrýnir Orkuveitu Reykjavíkur harkalega vegna málsins,
Gunnar gagnrýnir Orkuveitu Reykjavíkur harkalega vegna málsins, og segir að bæjaryfirvöld hafi þrýst á Orkuveituna fyrir nokkrum árum að hreinsa gufuna frá Hellisheiðavirkjun betur þannig að brennisteinsmengunin fari ekki yfir lögbundin mörk, eins og hefur gerst í gegnum tíðina. Þá stendur til að herða löggjöf um loftmengun en þau lög taka gildi næstu áramót.

„Orkuveitan getur ekki hummað þetta lengur af sér,“ segir Gunnar og bætir við: „Það er algjölega óþolandi að Orkuveitan geri ekkert í þessu.“

Bæjarfulltrúarnir segja svo í lok bókunarinnar að það sé full ástæða til að krefjast þess að Orkuveitan bæti úr þessu vandamáli strax.

Ekki náðist í umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×