Skoðun

Samfylkingin og staða leigjenda

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar
Fyrir kosningar rigndi inn blaðagreinum frá frambjóðendum þar sem ágæti framboðs var tíundað. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi og frambjóðandi Samfylkingarinnar, fékk eina slíka birta í Fréttablaðinu 25. apríl sl. Þar sagði hún það vera eitt helsta kosningamál Samfylkingarinnar að bæta stöðu leigjenda.

Björk hreykir sér af húsnæðisstefnu sem þó er ekki tilbúin og segir þann árangur sem Samfylkingin náði á síðasta kjörtímabili hvað leigumálin varðar felast í því að tekjuskerðingar vegna húsaleigubóta séu minni en áður og húsaleigubætur hækki tvisvar á þessu ári.

Staðreyndin er hins vegar sú að staða þeirra leigjenda sem verst eru staddir fjárhagslega fer versnandi og þar bera Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, og félagar hennar í Samfylkingunni talsverða ábyrgð.

Almennar húsaleigubætur

Það er að vísu rétt að þeim hefur fjölgað sem fá almennar húsaleigubætur en greiðslubyrði af leigu þeirra hefur hins vegar aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Hækkun almennra húsaleigubóta 1. janúar sl. nam 1.700 kr. til þeirra sem höfðu fullan rétt. Þann sama dag hækkaði 150.000 kr. leiga Félagsbústaða, samkvæmt vísitölu um 2.040 kr. Bæturnar hækka svo aftur 1. júlí um 2.300 kr., þannig að samanlögð hækkun bótanna nemur 4.000 kr. á árinu. Strax 1. apríl sl. hafði sama leiga hækkað um 4.950 kr. Húsaleiguhækkun fyrstu þrjá mánuði ársins er því þegar búin að éta upp hækkun húsaleigubóta og vel það. Að öðru leyti hafa húsaleigubætur ekki hækkað síðan í apríl árið 2008 en húsaleiga Félagsbústaða hefur hækkað samkvæmt neysluvísitölu um rúm 40%.

Sérstakar húsaleigubætur

Félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færar um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Sérstakar húsaleigubætur eru á ábyrgð sveitarfélaga og eru reiknaðar sem hlutfall af almennum bótum. Fram að síðustu áramótum var þetta þannig að hlutaðeigandi fékk 1.300 kr. í sérstakar húsaleigubætur fyrir hverjar 1.000 kr. sem hann fékk í almennar bætur. Meirihlutinn í Reykjavík sá ekki sóma sinn í að fylgja hækkun ríkisins og lækkaði því hlutfall sérstöku bótanna. Þetta var gert, þrátt fyrir að greiðslubyrði borgarinnar af húsnæði fyrir fátækt fólk fari stöðugt lækkandi.

Þakið

Þessu til viðbótar neitar meirihlutinn í Reykjavík, með Björk Vilhelmsdóttur í fararbroddi, að afnema þak eða hámark sem sett var á húsaleigubætur árið 2008 og stendur enn í sömu krónutölu. Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsviði verður þakið til þess að húsaleigubætur til allra einstæðra foreldra með fullan rétt skerðast og þar munar jafnvel tugum þúsunda á mánuði. Það má jafnframt geta þess að ekki var tekið tillit til barnafjölskyldna þegar húsaleigubætur voru hækkaðar nú eins og hefð hefur verið fyrir og húsaleigubótahækkunin nú er því fyrst og fremst í þágu þeirra tekjuhærri og barnlausu.

Félagslegt leiguhúsnæði

Þörfin fyrir félagslegt leiguhúsnæði fer stöðugt vaxandi. Þeir sem eiga skilgreindan rétt til þess í Reykjavík geta farið á biðlista eftir íbúðum Félagsbústaða. Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hefur skert tekjumörk skjólstæðinga sinna umtalsvert, þannig að færri eru á biðlistum en ella og borgin er í hópi þeirra sveitarfélaga sem gera ströngustu kröfurnar um búsetu áður en íbúar fá að koma á biðlista eða þrjú ár (allt niður í eitt ár víða annars staðar). Samt sem áður er beðið eftir 782 íbúðum og umsóknum hefur stöðugt fjölgað frá árinu 2010.

Verkamannabústaðakerfið tók við tekjulægsta fólkinu en þegar það var aflagt árið 1999 setti borgin sér það markmið, til að eyða biðlistum, að kaupa 100 íbúðir á ári og það sama var uppi á teningnum 2006 en þessar fyrirætlanir runnu báðar fljótlega út í sandinn. Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur engar áætlanir um að eyða biðlistum.

Aukin greiðslubyrði leigu samfara raunlækkun húsaleigubóta hefur stórlega skert lífsgæði tekjulægstu íbúanna og þá sér í lagi einstæðra foreldra. Björk Vilhelmsdóttir, sem bæði er formaður velferðarráðs og á sæti í starfshópi velferðarráðherra um húsnæðisbætur, og flokkur hennar, sem farið hefur með þessi mál bæði hjá ríki og borg, ættu að fara varlega í að hreykja sér af bættri stöðu leigjenda.




Skoðun

Sjá meira


×