Innlent

Meinvill í myrkrunum lá

Stefán Máni skrifar
Halldór Baldursson
Sem barn upplifði ég jólin í sinni hreinustu mynd – glimmerskreytta töfraveröld þar sem óskir rættust og allt gat gerst. Það er ótrúlegt að muna enn eftir jólagjöfum bernskunnar – bangsi, bíll, aksjónkall. Eftir því sem árin líða verða jólin smám saman að safni minninga – nostalgískum gagnabanka sem er opnaður einu sinni á ári: Við bræðurnir að bera út jólakortin í ófærðinni í Ólafsvík. Sömu jólaseríurnar í stofugluggunum, sama skrautið á trénu ár eftir ár – ýmist keypt eða föndrað. Mandarínur og Makkintoss. Hangikjötsveisla hjá ömmu í Mýrarholti, kökur og heitt súkkulaði hjá ömmu á Ennisbraut. Árin líða, fólkið hverfur en minningarnar lifa.

Ég hélt lengi vel ég að myndi eftir því þegar móðurafi minn gaf mér fyrsta bangsann minn, hann Palla – þá var ég tveggja ára. Nýlega sá ég ljósmynd af þessu og áttaði mig á því að minningin var fölsk – það var ljósmyndin sem ég mundi eftir en ekki sjálfur atburðurinn. Jólin eru dálítið þannig, eins og sjálf æskan – björt og litrík minning sem er byggð á sönnum atburðum, mátulega bjöguð og jafnsæt og konfektmoli í munni. Jólasveinarnir, jólaböllin, að fá gott í skóinn og vera kjaftstopp af aðdáun og undrun. Ekki skrýtið að maður hlakkaði til! En svo kemur gelgjuskeiðið – töfrarnir hverfa og blákaldur veruleikinn blasir við: Jólasveinninn er ekki til, þetta var allt í plati.

Árið er 1987, það styttist í jólin. Ég er sautján og á öðru ári í Menntaskólanum á Akureyri. Ég bý á heimavistinni, uppreisnarseggur og hálfgerður pönkari, geng um snoðaður í ermalausum bol og rifnum gallabuxum, læt mig dreyma um tattú og alls konar sem vantar upp á töffaraímyndina. Á heimavistinni er mikið líf og fjör og flestir farnir að hlakka til jólanna. Jólalög eru spiluð, engill hér og jólasveinn þar og stigvaxandi stemming í loftinu. En ég er ónæmur fyrir þessu öllu saman – grjótharður. Læt ég þar við sitja? Nei. Ég er nefnilega ekki alveg ónæmur. Ég er meira með ofnæmi. Þetta jólastand fer allt saman alveg voðalega í mínar fínustu – munnherkjur og kryppa, svei mér þá. Þetta truflar mig, mér er illa við þetta – ég breytist í sannkallaðan Skrögg og Skröggur gamli

liggur ekki á skoðunum sínum!

Jólin eru ekki kristin hátíð! segir Skröggur. Þau eru ævaforn og rammheiðin! Kristnin aðlagaði sig bara að jólunum, það var það sem gerðist! Fyrst stal kirkjan jólunum, svo Kókakóla kompaníið! Sankti Kláus var sóðalegt illmenni, ekkert eins og þessi rauðklæddi offitusjúklingur sem flýgur um himininn með hreindýrum. Hreindýr – halló?

En enginn nennir að hlusta á Skrögg, það er bara hlegið að honum eða það sem verra er – hann einfaldlega hunsaður! Ég ákveð að snúa vörn í sókn. Ef fólkið vill jól þá skal það bara fá að kafna á þeim! Hó, hó, hó! Ég gerist boðberi jólanna númer eitt, tvö og þrjú, stend vaktina í setustofunni og skipti snarlega um rás á útvarpinu ef einhver stöðin vogar sér að spila ekki jólalag. Ég sé til þess að það ómi jólalög innan veggja heimavistarinnar frá morgni til kvölds, og það á fullu blasti! Ég er ekki frá því að ég hafi meira að segja sungið með, hátt og illa – engu líkara en að ég hafi verið andsetinn af Trölla sem stal jólunum, svona eftir á að hyggja.

Þetta vekur dálitla lukku, það vantar ekki – svona til að byrja með. Alltaf pláss fyrir smáflipp í menntó. Með áherslu á smá. Glansinn fer fljótt af þessu uppistandi, sjálfur fæ ég krónískt jólalagaóþol og byrja aftur að þramma um í pönkbol með kryppu á bakinu og gremjulega Skröggsgrettu á annars ungæðislegu andlitinu. Ég teikna óviðeigandi jólamynd og hengi hana á herbergisdyrnar mínar, skelli hurðinni og fer í sjálfskipaða fýluútlegð.

Jólin nálgast, úti er myrkur en aðventuljós í hverjum glugga. Friður yfir öllu, rafmagn í loftinu. Frammi á göngunum er eftirvænting, kátína og spenna – fislétt fótatök, hvíslingar og niðurbældur hlátur. Hvað er á seyði? Skröggur ýtir steininum frá hellinum og gægist fram. Já, auðvitað! Áður en börn og kennarar halda heim í langþráð frí er hefð að borða saman jólamáltíð í matsalnum. Hefðir, þessi ótalmörgu óskrifuðu lög sem ramma inn jólin. Hvert hús og hver fjölskylda hefur sínar hefðir, gamlar og nýjar. Mennirnir breytast og hefðirnar með en þær hverfa aldrei. Við sendum jólakort og opnum kortin sem við fáum. Við drekkum jólaöl og blöndum saman malti og appelsíni í ýmsum hlutföllum. Borðum konfekt. Hlustum á kveðjur í útvarpinu. Höfum ofan af fyrir börnunum, sækjum ömmu og afa – eða minnumst þeirra. Eldum sama matinn ár eftir ár, bíðum eftir að kirkjuklukkurnar slái sex. Opnum gjafir.

Heimavistin iðar af lífi, hún ilmar af sjampói og rakspíra og kjólar og skyrtur liggja á umbúnum rúmum. Allir eru eitthvað svo kurteisir og penir, enginn er með læti eða leiðindi. Krakkaskarinn er samstilltur og samstíga án þess að nokkur hafi blásið í flautu, lofað umbun eða hótað refsingu. Meira að segja húsvörðurinn virðist nokkuð slakur – ætli hann sé fullur? Niðri í matsalnum eru einhverjir að hengja upp skraut, ilmurinn úr eldhúsinu er jólalegur og lokkandi. Skröggur gamli engist um – ég er milli steins og sleggju, innra með mér takast á uppreisnarseggurinn og – jólabarnið? Ég gretti mig í sálinni, strunsa eftir göngum og upp stiga. Ætlarðu ekki í sturtu? Á ekki að klæða sig upp? Jú, jú, ég ætla alveg í sturtu, maður verður að baða sig allt árið, ekki satt? En nei, ég ætla ekki að klæða mig neitt sérstaklega upp – til hvers? Þetta er bara einhver heimsk hefð, í raun bara hver annar kvöldmatur – kvöldmatur með extra veseni, hver fattaði upp á því, ha?

Engum finnst ég sniðugur, kaldhæðnin frýs föst á vörunum á mér og í stað þess að ná að pirra liðið sé ég votta fyrir depurð í augum þeirra. Nei, vonbrigðum. Af hverju vonbrigði? Ég meina, þeim er alveg sama um mig, ekki satt? Má ég ekki alveg vera í mínum gamla pönkbol? Hvað er málið? Þögular spurningar, engin svör.

Klukkan er alveg að verða sex, mér er farið að líða eitthvað undarlega. Kannski að verða veikur? Nei, það er eitthvað annað. Eitthvað hrærist innra með mér, eitthvað sem togar í mig – eitthvað hlýtt og mjúkt og kjánalegt sem mér tekst hvorki að kæfa né losna við. Verð ég ekki að fara í skyrtu eða eitthvað? Ég meina, ég meika ekki ef allir fara að glápa á mig og þannig. Kannski maður verði bara stilltur, svona fyrir hina, til að skemma ekki fyrir þeim. Skemma hvað?

Ég reyni að kyngja en það er eitthvað fast í hálsinum. Ég er varnarlaus, inni í mér kviknar lítið ljós – það smellur í tímastilltum rofa, gagnabankinn opnast og minningarnar streyma fram. Ég vil ekki skemma jólin – þarna, ég sagði það!

Ég geng niður tröppurnar, klæddur í hvíta skyrtu og pressaðar buxur. Að neðan berst þægilegur kliður, lykt af hangikjöti, uppstúf og laufabrauði í loftinu. Í matsalnum eru dúkuð langborð, það logar á kertum og borðin svigna undan kræsingum. Allir eru í sínu fínasta pússi, brosa og tala saman í hálfum hljóðum, hver einasti nemandi eins og prinsessa og prins og kennararnir eins kóngar og drottningar – hversdagurinn er horfinn og eitthvað allt annað komið í hans stað. Ég horfi, meðtek og trúi – verð einn með öllu, allt er í mér.

Þarna, á þessu ógleymanlega andartaki, upplifi ég hinn sanna anda jólanna, þessa heilögu tilfinningu, þennan guðlega neista sem titrar í hjartanu en er hvorki hægt að skilja né útskýra – hann er eins og mýrarljós, ósnertanlegur en er alltaf innan seilingar. Við skynjum jólin en skiljum þau kannski ekki alveg – ekki frekar en línuna „meinvill í myrkrunum lá“ úr Heims um ból.

Þegar klukkurnar slá sex á aðfangadag er töfrastund. Við sameinumst sem ein stór fjölskylda og vitum að enginn má vera út undan, enginn má gleymast, enginn má vera einn. Hvort við tökum á móti töfrunum og hversu lengi þeir vara er svo alveg undir okkur sjálfum komið.

Gleðileg jól!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×