Skoðun

Ríkisútvarpið ól mig upp

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar
Ég á Ríkisútvarpinu margt að þakka. Það ól mig að mörgu leyti upp og lagði grunninn að menntun minni og áhugasviði síðar á lífsleiðinni. Þegar ég var barn að aldri lék Ríkisútvarpið stórt hlutverk í lífi mínu. Ég vaknaði við rödd Péturs Péturssonar og Jóns Múla Árnasonar í morgunútvarpinu, fylgdist með morgunleikfimi Valdimars Örnólfssonar – svo ekki sé talað um barnatíma Skeggja Ásbjarnarsonar. Í gegnum Ríkisútvarpið kynntist ég m.a. Gunnari Gunnarssyni, Jóni Trausta og Halldóri Laxness. Á kvöldin hlýddi ég á þjóðlegan fróðleik á kvöldvökum, fylgdist með útvarpsleikritum og missti aldrei af Sunnudagskvöldi með Svavari Gests.

Ég man enn hvar ég var stödd þegar ég heyrði fréttaþulinn segja þjóðinni frá morðinu á Kennedy og upphafi Surtseyjargossins. Ég sat hjá föður mínum, bóndanum, sem hlustaði áhyggjufullur á veðurfréttirnar og minnist hátíðaleikans þegar lestur jólakveðja hófst.

Menningarlegt hryðjuverk

Þessi stutta upprifjun er aðeins lítið brot af því uppeldislega hlutverki sem Ríkisútvarpið lék í lífi mínu. Án þess hefði ég ekki öðlast áhuga á helstu rithöfundum þjóðarinnar eða klassískri tónlist mestu tónskálda sögunnar. Án Ríkisútvarpsins hefði ég ekki verið tíður gestur á bókasöfnum landsins – eða lagt fyrir mig íslensku- og bókmenntanám síðar á lífsleiðinni. Ég átti einnig eftir að kynnast innviðum Ríkisútvarpsins þegar ég starfaði þar sem dagskrárgerðarmaður um árabil. Þar upplifði ég samstarfsfólk sem vann saman eins og einn maður og þótti afar vænt um vinnustaðinn sinn. Þar kynntist ég faglegum metnaði sem náði langt út fyrir skyldurækni launþegans. Þar var starfsfólk meðvitað um ábyrgð sína og skyldur gagnvart hlustendum; þjóðinni sem alin var upp með þessari merku stofnun.

Ríkisútvarpið er ekkert annað en fólkið sem vinnur þar. Nú hefur verið vegið illa að þessum heimilisvini þjóðarinnar sem hefur ekki lengur burði til þess að færa okkur ómetanlegar gjafir sínar.

Ríkisútvarpið er þjóðin sjálf og um leið og stoðunum er kippt undan starfsemi þess er það menningarlegt hryðjuverk gagnvart íslenskri þjóðarsál.




Skoðun

Sjá meira


×