Skoðun

Lánin eru samt dýrari á Írlandi

Haraldur Ólafsson skrifar

Að undanförnu hefur lítið heyrst af loforðum um ódýrt lánsfé ef skipt verður um gjaldmiðil á Íslandi. Það er skiljanlegt, því núna er tiltölulega hagstætt að taka lán til fasteignakaupa, bæði miðað við sum nágrannalönd og eins miðað við það sem oft hefur áður verið hér á landi. Þann 8. desember sl. hefur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þó nokkur orð um meinta ódýra peninga á Írlandi í grein í Fréttablaðinu. Skoðum það nánar.



Hjá Írlandsbanka eru vextir á húsnæðislánum með breytilegum vöxtum 4,5% (sjá heimasíðu Bank of Ireland) og ársverðbólga á Írlandi er 0,3%. Hjá Íslandsbanka og Landsbankanum eru vextir á húsnæðislánum með breytilegum vöxtum 6,75% en ársverðbólga á Íslandi er 4,2%. Miðað við þessar tölur eru raunvextir 4,20% á Írlandi en 2,45% á Íslandi. Það er sem sagt mun dýrara að taka lán á Írlandi en á Íslandi þessa dagana. Það hefur ekki alltaf verið þannig og verður sjálfsagt ekki alltaf þannig, en þannig er það núna og þannig hefur það verið undanfarin ár.

Hvernig kemur ofanritað heim og saman við greiðslubyrðarsúlurit sem fylgir grein Sigríðar Ingibjargar þar sem lántakandi á Íslandi þarf að greiða mun meira en lántakandi á Írlandi? Skýringin virðist vera sú að um jafngreiðslulán sé að ræða. Greiðslurnar eru fastar í krónum talið, en í verðbólgu á Íslandi rýrnar krónan jafnt og þétt. Miðað við 4% verðbólgu á Íslandi en 0% á Írlandi er raunverulegt verðmæti afborgunarinnar komið niður fyrir það sem er á Írlandi strax á 10. ári og næstu 15 árin verða afborganirnar sífellt hagstæðari fyrir skuldarann á Íslandi. Þegar upp er staðið er lánið í Írlandsbanka miklu dýrara en í íslensku bönkunum eins og endurspeglast í hjálögðu súluriti.



Óviðeigandi málflutningur

Það hefði verið heiðarlegt af höfundi að segja frá því. Í staðinn hefði mátt sleppa málsgreininni sem segir að með því að taka upp evru mætti lækka greiðslubyrði húsnæðislána varanlega um 30% sem er í besta falli mjög villandi og ósönn ef litið er til raungildis peninga. Lántakendur á Íslandi sem vilja lægri greiðslubyrði geta tekið verðtryggð lán sem bera líka lægri raunvexti en lán Írlandsbanka um þessar mundir.



Í margbrotnu samfélagi er nauðsynlegt að sýna umburðarlyndi og það er blessunarlega löng hefð fyrir slíku þegar í hlut eiga söfnuðir sem boða sæluvist í himnaríki fyrir lítið meira en sæmilega hegðun. Á Íslandi er nú hávaðasamur söfnuður fólks sem býður sæluvist með þegnskyldu í verðandi stórríki gamalla nýlenduvelda sem sjaldan hafa þolað smáþjóðir. Í stað þess að gæta að því sem er satt og rétt í boðuninni falla safnaðarmenn sí og æ í þá freistni að lofa gulli og grænum skógum þótt ekkert slíkt sé í boði heldur aðeins meira að borga. Svoleiðis málflutningur er ekki viðeigandi, allra síst þegar í hlut eiga fulltrúar sem valdir eru til trúnaðarstarfa fyrir almenning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×