Viðskipti innlent

Já halda 118 í hálft annað ár

Þorgils Jónsson skrifar
Já upplýsingaveitur fá að halda þriggja stafa símanúmeri út júní árið 2015. Samkeppnisaðilar eru ósáttir við það.
Já upplýsingaveitur fá að halda þriggja stafa símanúmeri út júní árið 2015. Samkeppnisaðilar eru ósáttir við það.
Já upplýsingaveitur munu þurfa að hætta með númerið 118 um mitt ár 2015, eftir að Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) afturkallaði leyfi til notkunar á númerinu á föstudag um leið og alþjónustukvöðum var aflétt af fyrirtækinu.

Andri Árnason, framkvæmdastjóri Miðlunar sem rekur Gulu línuna í samkeppni við Já, er hins vegar ósáttur við að Já skuli fá að halda þriggja stafa númeri svo lengi.

Sigríður Margrét Oddsdóttir
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segist fagna ákvörðuninni þó að hún feli í sér rask. 

„Í sjálfu sér hefur þessi úrskurður engin áhrif á okkar starfsemi,“ segir Sigríður og bætir því við að hún hafi verið viðbúin niðurstöðunni.

„Við munum að sjálfsögðu halda áfram að gefa út Símaskrána, reka ja.is og bjóða upp á þjónustuna sem við veitum í 118, þó að við séum ekki með kvaðir á okkur. Undanfarin ár höfum við lagt mjög mikið á okkur til að vekja athygli á númerinu okkar, þannig að það segir sig sjálft að það felur í sér ákveðna röskun fyrir okkur að hætta með það. Við munum hins vegar svara í 118 út júní 2015 en munum samhliða svara í 1818 og nota það númer í framhaldinu.“

Aðspurð segir Sigríður að ekki hafi verið rætt um að draga úr þjónustu fyrirtækisins eða fækka starfsfólki. „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíkt.“

Andri segir ákvörðun PFS ganga allt of skammt. Gula línan sé með fjögurra stafa númer, 1800, og það hafi skekkjandi áhrif á samkeppnisstöðu að Já fái eitt fyrirtækja að nota þriggja stafa númer. 

„Þetta er galin ákvörðun og huglaus hjá fjarskiptayfirvöldum. Þeir hefðu, reglum samkvæmt, mátt hafa árs fyrirvara til að leggja niður þriggja stafa númerið en þess í stað er það eitt og hálft ár. Ég get ekki lesið annað í þetta en að þetta sé gert til að friða Já.“

Andri deilir einnig á að í úrskurðinum sé ekki minnst á að bæta aðgengi annarra fyrirtækja að notendagögnum símafyrirtækjanna sem Já býr nú yfir. 

PFS og Samkeppniseftirlitið hafa áður sagt að samkeppni geti ekki skapast á þessum markaði að óbreyttu því hrágögn frá símafyrirtækjunum séu ófullkomin.

„Þrátt fyrir það er ekkert gert í þeim málum,“ segir Andri, sem ætlar að reyna að ná fundi með PFS í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×