Innlent

Alltaf látið loga á jólanótt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það var ekki fyrr en við komumst á skólaaldurinn, tíu ára gamlar, sem við gátum leikið hvor við aðra en þá vorum við líka alltaf saman.“
"Það var ekki fyrr en við komumst á skólaaldurinn, tíu ára gamlar, sem við gátum leikið hvor við aðra en þá vorum við líka alltaf saman.“ Fréttablaðið/Vilhelm
Það er meira hvað þú ert myndarleg að vera að prjóna, manneskja. Ég geri ekkert annað en spila og skemmta mér,“ segir Jóhanna Þórhallsdóttir hlæjandi þegar hún heimsækir æskuvinkonu sína, Katrínu Guðmundsdóttur, á Ljósvallagötunni. Þeim hefur verið stefnt saman til að rifja upp jólin á þriðja áratug síðustu aldar og það verða miklir fagnaðarfundir.

Jóhanna og Katrín, eða Hanna og Dysta eins og þær eru nefndar í daglegu tali, eru báðar fæddar árið 1921. Þær ólust upp við rætur Öræfajökuls; Hanna í Vesturbænum í Svínafelli og Dysta í Selinu í Skaftafelli. Þó nú sé brunað á nokkrum mínútum milli þeirra bæja falla þar tvær straumþungar jökulár sem voru óbrúaðar lengi og því gátu vinkonurnar sjaldan leikið sér saman í bernsku. Þær hafa búið í Reykjavík í marga áratugi, alið þar upp börn og líka unnið utan heimilis; Hanna í Húsgagnaverslun Kristjáns Siggeirssonar og Dysta í Útvegsbankanum. Nú eru þær ekkjur og búa á eigin vegum, en hittast sjaldan. Þær hefja viðtalið á að rifja upp fyrstu kynni.

Dysta: „Ég sá Hönnu fyrst þegar hún kom í heimsókn til okkar að Skaftafelli með fósturmömmu sinni. Ég fór að gráta þegar þær fóru. Það var alveg nýtt fyrir mig að hafa einhvern að leika við því þó ég ætti eldri systur var hún oft svo lasin.“

Hanna: „Já, ég man vel eftir þegar við mamma fórum á hestum að Skaftafelli og gistum nokkrar nætur í Selinu. Ég hugsa að ég hafi verið fjögurra ára þá.“

Dysta: „Annars var það ekki fyrr en við komumst á skólaaldurinn, tíu ára gamlar, sem við gátum leikið hvor við aðra en þá vorum við líka alltaf saman. Það var kennt til skiptis í Svínafelli og á Hofi og þegar skólinn var á Hofi var okkur komið fyrir hvorri á sínum bænum en ég var mest þar sem Hanna var.“

Hanna: „Já, við létum nú stundum hálf illa í skólanum, minnir mig.“

Dysta: „Minnstu ekki á það. Einu sinni ætlaði ég að gera at í kennaranum, bjó til smá sár á höndina og notaði blóðið sem blek svo hann gæti ekki leiðrétt stílinn minn með rauðu, því enginn átti rautt blek nema hann. Varaði mig ekki á að blóðið varð svarbrúnt þegar það þornaði.“

Dúkkuhausinn brotnaði

egt.“

Hlökkuðuð þið mikið til jólanna sem börn?

Katrín: „Já, afskaplega mikið. Undirbúningurinn var svo spennandi. Ég fór með pabba upp í heiði til að ná í lyng og hjálpaði til að binda það á jólatréð. Lyktin var svo góð. Svo fengum við alltaf sendingu í brúnum maskínupappír frá ömmu minni og móðursystur í Reykjavík. Pakkinn kom oft löngu fyrir jól, var settur inn í gestaherbergi og við systur vorum af og til að kíkja á hann. En ég á líka blendna minningu í sambandi við pakkann því einu sinni fékk ég fallegan postulínsdúkkuhaus með svart hár sem mamma átti svo að sauma búkinn á. Ég hafði aldrei séð neitt yndislegra því við systur áttum bara tuskudúkkur. Ragna systir mín var þá smákrakki og náði í dúkkuhausinn og hann brotnaði hjá henni. Ég fór að hágráta. En það kom alltaf eitthvert góðgæti í pakkanum og það var sett í poka sem mamma bjó til úr pappír til að skreyta tréð.“

Fékkst þú pakka, Hanna?

Hanna: „Nei, ég fékk það ekki. En ég hlakkaði mikið til jólanna samt og fylgdist spennt með þegar farið var að gera hreint og baka. Það var heilmikið bakað og húsið ilmaði allt. Ég náði líka í lyng upp í brekkur á jólatréð sem var heimagert og snúin, lítil kerti sett á greinarnar.“ 

Katrín: „Það var, eins og Hanna segir, allt pússað fyrir jólin og ekki síst lampaglösin. Minnisstæðustu jólin mín eru frá því áður en rafmagnið kom árið 1930. Þangað til voru bara olíulampar og á jólunum var kveikt á kertum. Það var eitt af því sem gerði jólin hátíðleg að hafa öll þessi ljós. Og alltaf var látið loga á jólanótt. Það var sérstakt og einhvern veginn heilagt.“

Hanna „Já, það var eins hjá okkur. En rafstöðin kom í Svínafelli 1926 og ég man ekki eftir rafmagnsleysi nema þegar kæfði í lækinn eða hann stíflaðist af öðrum orsökum.“ 

Fenguð þið nýja kjóla fyrir jólin? Hanna: „Það var alltaf annað hvort prjónað eða saumað eitthvað á mig. En ekkert keypt í búð. Allir fengu einhverja nýja flík fyrir jólin svo þeir færu ekki í jólaköttinn.“ 

Var aldrei panik yfir að einhvern vantaði nýja skó eða eitthvað?

Hanna: „Þá voru bara gerðir nýir skór úr skinni.“ 

Dysta: „Já, allt var unnið heima og reynt að gera sem mest fyrir jólin. Mamma sat við að sauma fram á nætur, oft upp úr gömlum fötum sem hún fékk að sunnan. Ég man ekki eftir að það vantaði neitt.“ 

Hvernig var aðfangadagskvöld?

Hanna: „Allir þvoðu sér og bjuggu sig upp eins og best þeir gátu en fyrst var hugsað um að gefa skepnunum vel, í fyrra lagi svo hægt væri að hlusta á útvarpsmessuna. Áður en útvarpið kom var jólaguðspjallið lesið heima. Mamma gerði það og á eftir var sunginn jólasálmur. Svo var matur. Venjulega hangikjöt og með því uppstúfur og gular baunir, soðnar í litlum léreftspokum, þannig urðu þær eins og búðingur. Það fengu allir skammt á sinn disk og ég gleymi ekki hvað þetta var gott.“ 

Hefurðu smakkað pokabaunir síðan?

„Ég hef þær alltaf með hangikjöti.“





Spilað á greiðu

Dysta: „Mig minnir að við höfum byrjað hátíðina á að borða kjötsúpu sem öllum fannst voða góð. Það var nýnæmi að fá ferskt kjöt og við áttum rófur fram eftir öllu. Svo var jólaguðspjallið lesið, Sveini, föðurbróðir minn gerði það, hann las húslestur á hverjum sunnudegi. Seinna um kvöldið var farið fram í stofu til að syngja, mamma spilaði á orgel og þá fengum við súkkulaði og kökur. Það var kalt í stofunni en í baðstofunni var smá viðarofn.“

Hanna: „Mér þótti hangikjöt alltaf betra en nýtt og var svo ofdekruð heima að þegar tekið var til nesti á engjar var stungið hangikjötsbita með handa mér þegar hinir fengu nýtt. Eins var alltaf tekin frá mjólk í sérstaka könnu handa mér. En svo við höldum áfram með jólin þá var kúnum gefin aukagjöf á jóladag og öðrum skepnum auðvitað gefið vel líka en svo var farið að spila. Þá kom fólk af hinum bæjunum því það var fjórbýli í Svínafelli og oft spilað fram á nætur. Stundum var líka dansað. Þá var spilað undir á greiðu því ekkert hljóðfæri var til.“

Fóruð þið á jólaböll?

Dysta: „Ég man ekki eftir að hafa heyrt talað um þau. Við hefðum hvort sem er ekki getað farið frá Skaftafelli.“ 

Hanna: „Ég man heldur ekki eftir jólaballi. Það var ekki auðhlaupið að því að fara með börn á milli bæja í Öræfum á þessum árum. Það voru svo mörg óbrúuð vötn á leiðinni að Hofi, þar sem samkomuhúsið var, þau gátu verið uppblásin eða runnið milli skara.“ 

Katrín: „Já, þegar ég fór í skólann fannst mér hrikalegt þegar var verið að ýta hestunum niður ísskörina og svo þurfti maður að demba sér á bak. Það var það eina sem ég var hrædd við í sambandi við vötnin þegar ég var að alast upp en ég vandist því að fara yfir þau á öðrum árstímum.“

Hanna: „Einhvern tíma var ég á hesti á leið austur að Hofi með lestrarfélagsbækur reiðandi í pokum. Þegar ég fór yfir Miðá, sem nú rennur í Virkisá, þá hnaut hesturinn og ég hrökk af baki út í ána en slasaðist ekkert og bækurnar björguðust, sem betur fór.“

En hvað finnst ykkur um jólin nú til dags?

Hanna: „Þau eru ekki nærri eins hátíðleg og þau voru.“

Dysta: „Nei, það er alveg rétt. Eftirvæntingin var meiri áður fyrr. Þetta var allt svo mikil tilbreyting í fásinninu og því svo óskaplega hátíðl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×