Skoðun

Álag og þreyta veldur mistökum

Ólafur G. Skúlason skrifar
Síðustu daga höfum við verið rækilega minnt á þá miklu ábyrgð sem heilbrigðisstarfsmenn bera. Fjallað hefur verið um tíðni svokallaðra læknamistaka sem réttara væri að nefna mistök í heilbrigðisþjónustu þar sem læknar eru ekki þeir einu sem gera mistök, þau gerum við öll.

Í umfjöllun síðustu daga hefur verið kastað fram að árlega látist hér á landi 170 sjúklingar vegna mistaka. Sú tala er yfirfærð frá erlendum rannsóknum og ber að taka henni með fyrirvara, einkum þar sem engin rannsókn hefur verið gerð á tíðni dauðsfalla vegna mistaka á Íslandi að mér vitandi. Vissulega eiga slík mistök sér stað og er ég ekki að reyna að draga úr þeim raunveruleika en ég leyfi mér að taka umræddri tölu með fyrirvara.

Í fjölmiðlum hefur verið rekið mál hjúkrunarfræðings sem hefur réttarstöðu grunaðs manns vegna mistaka í starfi sem leiddu til andláts sjúklings. Þetta er hræðilegt atvik og hefur mikil áhrif á alla þá sem að málinu koma, aðstandendur sjúklingsins, hjúkrunarfræðinginn sjálfan og alla heilbrigðisstarfsmenn hér á landi.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að öryggi sjúklinga sé haft að leiðarljósi í allri heilbrigðisþjónustu og beint athygli ráðamanna og þjóðarinnar á það ástand sem skapast hefur innan heilbrigðiskerfisins vegna niðurskurðar. Vitað er að með auknu álagi og þreytu starfsmanna eykst tíðni mistaka og afleiðingarnar geta orðið alvarlegar.

Lágmarkshvíld skert

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna stétt eins og hjúkrunarfræðingar sem koma beint að meðferð sjúklinga hafi í sínum kjarasamningum undanþágu frá lögbundinni hvíld. Þannig má skerða 11 klukkustunda lágmarkshvíld þeirra niður í átta klukkustundir einu sinni í viku. Slíkt eykur á þreytu þeirra og með því síaukna álagi sem skapast hefur í heilbrigðiskerfinu er komin hættuleg blanda af yfirkeyrðu og þreyttu starfsfólki.

Það vekur undrun mína að aðrar stéttir, svo sem flugfreyjur, flugmenn og vöruflutningabílstjórar, þurfa að hlíta ströngum reglum um hvíld en fólk sem vinnur með líf annarra í höndunum virðist geta unnið lengur, meira og með fráviksheimild frá lágmarkshvíld.

Rannsóknir hafa sýnt fram á það að með því að hafa vel mannað af hjúkrunarfræðingum aukast gæði þjónustu á sjúkrahúsum, dánartíðni minnkar, fylgikvillar meðferða verða sjaldséðari, legudögum fækkar og ánægja skjólstæðinga eykst til muna. Raunin er sú að víðsvegar í heilbrigðiskerfi nútímans hefur verið sparað mikið í hjúkrunarþjónustu sem hefur bein áhrif á öryggi þjónustunnar. Það að tryggja skjólstæðingum góða hjúkrun minnkar kostnað og eykur framlegð heilbrigðiskerfisins. Hjúkrunarfræðingarnir verða þó að vera upplagðir til að sinna hjúkrunarstarfinu.

Fagfólk í heilbrigðiskerfinu hefur velferð skjólstæðinga sinna að leiðarljósi þegar það kemur fram og talar um hvað betur megi fara í heilbrigðiskerfinu. Það verður að taka mark á því þegar það gerir slíkt því hér er um öryggi okkar allra að ræða. Ég fagna því að ríkisstjórnin og Alþingi hafa tekið visst skref í endurreisn heilbrigðiskerfisins með nýju fjárlagafrumvarpi og vona ég að sú þróun sé komin til að vera. Við viljum öll eiga kost á öruggri heilbrigðisþjónustu.




Skoðun

Sjá meira


×