Viðskipti innlent

Gagnrýna 25 ára gamalt neysluviðmið

Haraldur Guðmundsson skrifar
Innflutningur á kjúklingakjöti stóð einungis undir 0,8 prósentum af heildarneyslu árið 2010.
Innflutningur á kjúklingakjöti stóð einungis undir 0,8 prósentum af heildarneyslu árið 2010. Fréttablaðið/Hari.
Félag atvinnurekenda gagnrýnir að frumvarp um breytingar á tollalögum inniheldur engar breytingar á neysluviðmiði ákveðinna tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Kvótarnir falla undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og miða við árin 1986-88 en ekki við núverandi neyslu á landbúnaðarvörum.

„Samningurinn heimilar ákveðna tollvernd en segir einnig að það eigi að vera tryggt að tiltekið magn af innflutningi standi viðkomandi löndum til boða á ásættanlegu verði. Það magn sem heimilt er að flytja inn hljóðar einungis upp á fimm prósent af þessu neysluviðmiði frá níunda áratug síðustu aldar og neysluvenjur landans hafa breyst síðan þá og nægir að horfa til sölu á kjúklingi,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Frumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, miðar að því að sníða vankanta af breytingum á tollalögum sem voru gerðar í fyrra, en Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að heimildir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að ákveða tolla á innflutningskvóta brytu í bága við stjórnarskrá.

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, segir ástæðuna fyrir núverandi viðmiði vera þá að samningur WTO og lögin sem voru innleidd vegna hans miði við þetta tiltekna viðmið.

„Það hefur ekki verið gerður nýr samningur. Það var næstum því búið árið 2008, en það slitnaði upp úr á elleftu stundu. Þau drög sem þar lágu fyrir miðuðu við allt annað ár. Menn geta gagnrýnt þetta en það sama á við um þessi 149 lönd innan WTO,“ segir hann og heldur áfram:

„En þetta frumvarp sem er fyrir þinginu núna fjallar ekkert um þetta gamla neysluviðmið heldur um tollkvóta sem ráðherra hefur heimild til að úthluta og hvernig tollar séu stilltir af,“ segir Ólafur.

Almar undirstrikar að gagnrýni félagsins sé tilkomin vegna þess að tollkvótarnir eru ekki á dagskrá í frumvarpinu.

„Þetta á að vera á dagskrá ef ráðuneytið, þingið og atvinnuveganefnd eru að taka málaflokkinn til skoðunar. Þá er ekki valkostur að horfa þröngt á málið og setja lítinn plástur á flakandi sár,“ segir Almar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×